Fyrrum leikmaður Arsenal telur að félagið ætti að semja við miðvörðinn Raphael Varane í sumar.
Samningur Varane við Manchester United er að renna út og þessi reynslumikli leikmaður leitar að nýjum vinnuveitanda.
Félög í Sádi-Arabíu hafa áhuga en Bacary Sagna, fyrrum bakvörður Arsenal, telur að Skytturnar ættu að sækja samlanda sinn.
„Hann yrði frábær fengur fyrir Arsenal. Hann gæti verið klár ef Saliba eða Gabriel þurfa hvíld eða meiðast,“ segir Sagna.
„Varane myndi passa vel inn í klúbbinn því hann er með sigurhugarfar. Ég hitti hann á úrslitaleik Meistaradeildarinnar og hann er enn með hungrið til að spila á hæsta stigi fótboltans nokkur ár í viðbót.“