Florian Wirtz, einn mest spennandi leikmaður heims, virðist ekki vera að flýta sér frá þýsku meisturunum í Bayer Leverkusen.
Hinn 21 árs gamli Wirtz var magnaður í frábæru liði Leverkusen á leiktíðinni. Hann skoraði 18 mörk og lagði upp 20 í öllum keppnum.
Hann er því eðlilega orðaður við enn stærri lið en bendir á að hann eigi enn þrjú ár eftir af samningi sínum.
„Það vita allir hversu langan samning ég er með hér. Það er ekki rétti tíminn til að ræða þetta núna,“ segir Wirtz.
„Ég nýt mín mjög vel í Leverkusen en nú er hausinn kominn á Evrópumótið,“ segir kappinn enn fremur, en hann er landsliðsmaður Þýskalands.