„Þetta var ótrúlega sætt. Ég vissi það frá fyrstu mínútu að við myndum vinna. En ég var smá farin að bíða eftir að dómarinn flautaði af í lokin. Þetta var orðið svolítið hvasst. Kannski ekki skemmtilegasti leikur sem ég hef spilað en skemmtilegt að fagna þessum þremur stigum í lokin.“
Þetta sagði Sveindís Jane Jónsdóttir við 433.is eftir mikilvægan 2-1 sigur Íslands á Austurríki í undankeppni EM í kvöld. Það var ansi hvasst í Laugardalnum í kvöld, sem hafði áhrif á leikinn.
„Ég veit ekki hvort ég hafi spilað í svona miklum vindi áður. Ég er náttúrulega úr Keflavík og þegar það er svona mikið rok þar er farið beint inn í Reykjaneshöll. Þetta var erfitt fyrir bæði lið en ég held að séum aðeins vanari.
Mér fannst við vera betri aðilinn. Við fáum mark á okkur undir lok fyrri hálfleiks. Það er yfirleitt högg en ég vissi að við myndum nýta vindinn og skora í seinni. Það var ekkert stress á okkur.“
Ísland er komið í bílstjórasætið um sæti á EM næsta sumar og Stelpurnar okkar ætla alla leið.
„Auðvitað. Ég er bara spennt fyrir næsta glugga,“ sagði Sveindís, en viðtalið í heild er í spilaranum.