Fótboltahlaðvarpið Þungavigtin gerði upp tímabilið í ensku úrvalsdeildinni í nýjasta þætti sínum en þar voru spekingar þáttarins, Kristján Óli Sigurðsson og Mikael Nikulásson, meðal annars beðnir um að velja augnablik tímabilsins.
Þar voru þeir félagar sammála um að það hafi verið þegar Heung-Min Son klúðraði dauðafæri í leik Tottenham gegn Manchester City á dögunum. Stefan Ortega varði frá honum og hélt City í bílstjórasætinu um Englandsmeistaratitilinn fyrir lokaumferðina á sunnudag.
„Það var þegar Ortega borðaði Son í morgunmat. Þetta var rosalegt,“ sagði Kristján.
Mikael vill meina að í undirmeðvitundinni hafi Son ekki langað að gera erkifjendum Tottenham í Arsenal greiða, en Skytturnar keppa við City um Englandsmeistaratitilinn.
„Þetta var ótrúlegt atvik og ég er alveg á því að Son hefði skorað þarna á móti City við allar aðrar ástæður. Þetta var ekki út af stressi, þetta var því innst inni vildi hann ekki skora,“ sagði Mikael.