Trent Alexander-Arnold bakvörður Liverpool segir frá því þegar Jurgen Klopp boðaði til fundar á óvenjulegum tíma, þá vissu leikmenn liðsins að eitthvað væri í vændum.
Klopp greindi þá frá því að hann væri að hætta sem þjálfari liðsins og það yrði opinberað innan tíðar.
„Þetta var skrýtið því við fundum aldrei á þessum tíma, við komum inn á æfingasvæði um tíu og svo er kannski fundur um 12 fyrir æfingu,“ sagði Trent í viðtali við Gary Neville.
„Á þessum degi vorum við boðaðir á fund 09:30, þetta er í fyrsta sinn sem við fundum á þessum tíma. Það eru allir mættir í klefann og horfa í kringum sig og velta fyrir sér hvað sé í gangi.“
„Hann sagðist bara vilja láta okkur vita og að hann væri að hætta.“
„Hann sagðist ekki geta tekið annað tímabil, en að hann hefði orku í að klára tímabilið,“ sagði Trent en framtíð hans virðist í lausu lofti þar sem samningur hans rennur út eftir eitt ár.