„Þetta leggst mjög vel í mig. Það er fínt að mæta þeim á útivelli því við eigum leik við Vestra þarna í kjölfarið. Það er gott að venjast vellinum þar,“ sagði Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, við 433.is í dag eftir að hans lið dróst gegn Þrótti í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
HK hefur spilað tvo leiki það sem af er í Bestu deildinni. Liðið náði í sterkt jafntefli gegn KA á útivelli í fyrsta leik en tapaði svo 0-4 gegn ÍA á heimavelli í gær.
„Þetta stig fyrir norðan var sterkt. Leikurinn í gær var kannski annað atriði. Þetta voru vonbrigði, að tapa 4-0 heima er allt of mikið. Rauða spjaldið breytti kannski aðeins leikmyndinnni en við eigum ekki að fá á okkur fjögur mörk. Við þurfum að sýna meiri karakter en það.“
HK var af flestum spáð neðsta sæti deildarinnar fyrir mót. Leifur telur að liðið geti nýtt það á jákvæðan hátt.
„Það kom mér ekkert mikið á óvart. Það er yfirleitt talað um okkur eins og eitthvað fallbyssufóður en við höfum sýnt það undanfarin ár að við erum með sterkt lið og erum sterkir karakterar. Þetta hentar okkur vel.“
Viðtalið í heild er í spilaranum.