Íþróttavikan, sem kemur að venju út alla föstudaga, var með breyttu sniði þessa vikuna sökum landsleiks Íslands gegn Ísrael. Þáttastjórnandinn Helgi Fannar Sigurðsson er staddur í Búdapest, þar sem leikurinn fer fram og því var þátturinn tekinn upp með fjarfundarbúnaði þetta skiptið. Hrafnkell Freyr Ágústsson var á sínum stað í settinu og með þeim félögum var Hörður Snævar Jónsson.
Í kvöld er komið að leiknum gegn Ísrael en um er að ræða undaúrslitaleik í umspili um sæti á EM. Sigurvegarinn mætir svo Úkraínu eða Bosníu í hreinum úrslitaleik um sæti á mótinu.
Það var rætt um hugsanlegt byrjunarlið Íslands í þættinum og hvort eitthvað gæti komið á óvart.
„Eina sem ég gæti séð væri ef Orra (Stein Óskarssyni) verður ýtt út úr þessu. Albert yrði settur upp á topp og Kristian (Nökkvi Hlynsson) mögulega inn á miðju, eða Hákon (Arnar Haraldsson) inn á miðju og Arnór Sig eða Jón Dagur úti á kanti,“ sagði Hörður um málið.
Hrafnkell telur að Kristian gæti komið inn í liðið.
„Ég held að Kristian sé það eina óvænta sem við gætum séð. Hann hefur verið mjög góður með Ajax.“
Umræðan í heild er í spilaranum.