Albert Guðmundsson, hetja íslenska landsliðsins gegn Ísrael í kvöld fær ekki að ræða við fjölmiðla um frammistöðu sína eftir leikinn.
Íslenskir fréttamenn sem mættir voru til Búdapest spurðu forsvarsmenn KSÍ um það hvort hægt væri að fá Albert til viðtals, svarið var að það væri ekki í boði.
Albert skoraði þrennu í 4-1 sigri Íslands í kvöld en þetta var hans fyrsti landsleikur frá því um mitt síðasta ár. Allir íslensku fréttamennirnir í Búdapest biðu eftir viðtali við Albert en því var hafnað.
KSÍ setti Albert til hliðar eftir að kona hér á landi kærði hann til lögreglu, málið var fellt niður fyrr á þessu ári.
Konan áfrýjaði þeirri niðurstöðu í upphafi vikunnar en KSÍ sagði þá að Albert yrði áfram í hópnum þrátt fyrir breytingar á málinu.
Ekik fengust frekari útskýringar frá KSÍ hvers vegna Albert sem var hetja Íslands í kvöld var ekki til viðtals.
Ísland mætir Úkraínu í úrslitaleik um laust sæti á Evrópumótinu á þriðjudag eftir sigurinn í kvöld en óvíst er hvort Albert fái að ræða við fréttamenn í kringum þann leik.