Sandro Tonali útilokar ekki að snúa aftur til AC Milan í framtíðinni þó svo að hann sé nýbúinn að yfirgefa félagið fyrir Newcastle.
Miðjumaðurinn mætti með sínu nýja liði til Mílanó í gær og gerði markalaust jafntefli við heimamenn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Sem fyrr segir fór Tonali til Newcastle frá Milan í sumar en miðað við fréttir vildi kappinn ekkert endilega yfirgefa ítalska félagið. Hann var því spurður eftir leik hvort hann teldi líklegt að hann sneri aftur til Milan einn daginn.
„Ég veit það ekki. Ég myndi borga fyrir að vita hvað framtíð mín ber í skauti sér. Kannski en kannski ekki. Fótbolti er skrýtinn,“ sagði Tonali.
Hann dýrkar þó Milan og leynir því ekki.
„Ég er ekki búinn að loka dyrunum á AC Milan. Ég get ekki falið ást mína á félaginu.“