Aaron Ramsdale markvörður Arsenal brosir orðið sjaldan og á mjög erfitt með að takast á við það að vera varamarkvörður Arsenal í dag.
Arsenal framlengdi samninginn við Ramsdale í sumar og taldi hann að staða hans væri því örugg, nokkrum vikum síðar kom David Raya til félagsins.
Raya hefur tekið stöðuna af Ramsdale í markinu og virðist eiga hana til framtíðar.
„Aaron er hættur að brosa,“ segir faðir hans Nick um stöðu mála og segir málið erfitt.
„Þetta er verulega erfitt að sjá hann svona en við minnum hann á það að hann verði að brosa líka.“
Nick segir ekkert hægt að tala illa um Raya. „Hann er frábær markvörður og þetta er ekki honum að kenna, hann kemur bara inn sem markvörður. Aaron segir að hann sé frábær drengur sem leggi mikið á sig, Aaron reynir að hjálpa honum eins og hann getur.“
Nick segir það erfiðasta að vita ekki af hverju Ramsdale var hent út. „Það hefur eitthvað með hvernig þetta var gert, að vita enga ástæðu. Við vitum ekkert hvað gerðist.“
Ramsdale er á sínu þriðja tímabili hjá Arsenal. „Þegar ég talaði við Arteta í símanum áður en Aaron var keyptur, þá talaði hann um að vilja bara hann,“ segir Nick en sagan í dag er sú að Arsenal hefur lengi reynt að fá Raya til félagsins.
„Núna kom Raya aftur á markaðinn og hann fékk hann. Af hverju læturðu leikmann samt framlengja og svo gerist þetta nokkru síðar?,“ spyr Nick.
„Við höfðum ekki hugmynd um þessar breytingar þá, Aaron vissi ekkert og hélt að hann ætti bara að vera markvörður liðsins áfram.“