Varnarmaðurinn Matthijs de Ligt er að missa vitið hjá Bayern Munchen samkvæmt þýska miðlinum Bild.
De Ligt er orðinn mjög ósáttur hjá félaginu en hann var á sínum tíma einn allra eftirsóttasti varnarmaður heims.
Hollendingurinn hefur byrjað fjóra deildarleiki Bayern á bekknum hingað til og er alls ekki sáttur með sína stöðu.
Bild fullyrðir þessar fregnir en De Ligt fékk nóg eftir 4-3 sigur á Manchester United í Meistaradeildinni í vikunni þar sem hann var ónotaður varamaður.
Thomas Tuchel, stjóri Bayern, virðist ekki of hrifinn af hæfileikum De Ligt og virðist hann ekki eiga framtíð fyrir sér hjá Bayern.
De Ligt fékk tækifærið í dag er Bayern vann Bochum 7-0 en um var að ræða gríðarlega þægilegan heimasigur.