Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, tjáði sig um yfirvofandi skipti Harry Kane til Bayern Munchen í dag.
Kane er á leið til Bayern á 100 milljónir evra og getur upphæðin hækkað í 120 milljónir evra síðar meir. Gerir kappinn fjögurra ára samning í Bæjaralandi.
„Nú vitum við hver staðan er og getum haldið áfram,“ sagði Postecoglou, sem tók við Tottenham í sumar.
„Mér skilst að það sé nær allt frágengið. Við undirbúum okkur fyrir framhaldið og leikinn gegn Brentford án Harry.“
Framtíð Kane var til umræðu í allt sumar en Postecoglou telur að hann hafi alltaf viljað leita annað ef samkomulag næðist.
„Eftir að hafa talað við hann á fyrsta degi var tilfinning mín sú að hann væri búinn að gera það upp við sig að fara ef félögin næðu samkomulagi. Hann var samt til í að vera áfram ef það næðist ekki samkomulag.
Hann er einn sá besti sem hefur spilað fyrir klúbbinn. Á því liggur enginn vafi. Tölfræðin talar sínu máli,“ sagði Postecoglou svo.