„Þetta leggst mjög vel í mig. Þetta verður flottur dagur og flottur leikur á milli tveggja góðra liða,“ segir Ásmundur í samtali við 433.is.
Breiðablik er á toppi Bestu deildarinnar en Víkingur á toppi Lengjudeildarinnar. Það er því ljóst að Blikar eru sigurstranglegri. Ásmundur var spurður að því hvernig væri að nálgast leikinn sem stærra liðið.
„Það er svosem ekkert öðruvísi en oft áður. Þetta er bikarúrslitaleikur og bæði lið eru búin að vinna sér inn þátttökurétt í þessum leik. Víkingur er búinn að slá út tvö Bestu deilarlið á leiðinni hingað. Þegar kemur að bikarúrslitum skiptir engu máli hver er hvar í deild eða þess háttar.“
Hann segir afar mikilvægt að fá stuðningsmenn á pallana.
„Þetta er keppni þar líka. Við þurfum á öllum Blikum sem geta mætt að halda því stemningin í stúkunni getur haft mikið að segja um það sem gerist á vellinum.“
Breiðablik tapaði bikarúrslitunum í fyrra gegn Val.
„Það setur blóð á tennurnar. Það voru vonbrigði í fyrra að tapa hér og missa af tveimur efstu sætunum í deildinni. Svo það er búið að vera blóð á tönnunum allt árið. Það verður núna líka. Það er hungur í klúbbnum og hópnum að ná í bikar.“
Nánar er rætt við Ásmund í spilaranum.
Leikurinn hefst klukkan 19 á föstudag.