BBC hefur beðist afsökunar eftir að ljót blótsyrði leikmanns Kanada heyrðust í leik liðsins við Ástralíu á HM í gær.
Ástralir komust áfram með 4-0 sigri. Kanada er úr leik.
Í seinni hálfleik braut Haley Raso, sem skoraði tvö mörk fyrir Ástralíu í leiknum, á Allysha Chapman í liði Kanada.
Chapman trylltist við þetta og baunaði fúkyrðum að Raso, sem öll náðust á upptöku í útsendingu BBC frá leiknum.
„Við biðjumst velvirðingar ef ljótt orðbragð heyrðist í gegnum hljóðnemana á vellinum sem greinilega eru mjög næmir,“ sagði lýsandi BBC.
Þetta er í annað sinn á HM sem BBC biðst velvirðingar á atviki. Fyrst var það vegna óviðeigandi spurningar fréttamanns á blaðamannafundi Marokkó.