Tómas Þór Þórðarson, Eiður Smári Guðjohnsen og Gylfi Einarsson hita nú upp fyrir stórleik Manchester City og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á Símanum Sport.
Það kom upp skemmtilegt atvik í upphituninni þegar vökvunarkerfi vallarins gaf þeim væna sturtu í beinni.
Þeir félagar tóku þessu vel en að sögn Tómasar gerði goðsögn Arsenal það ekki.
„Það verður að segjast að strákarnir mínir hafi tekið þessu betur en Robert Pires sem er hérna við hliðina á mér. Sá er ekki sáttur,“ sagði Tómas.
Arsenal er með fimm stiga forskot á City á toppi deildarinnar en síðarnefnda liðið á tvo leiki til góða.
Skytturnar hafa gert þrjú jafntefli í röð og þurfa helst sigur í kvöld.