Tveir leikir fóru fram í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Í París tóku heimamenn í PSG á móti Bayern Munchen í sannkölluðum stórleik.
Bayern var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að nýta sér það. Markalaust var þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Snemma í seinni hálfleik skoruðu Þjóðverjarnir hins vegar. Þar var að verki Kinsgley Coman eftir frábæra sendingu Alphonso Davies. Óhætt er að setja spurningamerki við Gianluigi Donnarumma í markinu.
Gestirnir voru áfram betri í kjölfar marksins en PSG tók skyndilega við sér þegar um 20 mínútur lifðu leiks og sóttu án afláts. Átti Nuno Mendes, sem og innkoma Kylian Mbappe af bekknum, stóran þátt í því.
Mbappe tókst að koma boltanum í netið eftir frábæran sprett Mendes á 82. mínútu en sá síðarnefndi var dæmdur rangstæður með hjálp VAR. Það stóð afar tæpt.
Í blálokin fékk Benjamin Pavard í liði Bayern sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brot á Lionel Messi.
Meira var ekki skorað og lokatölur 0-1.
PSG 0-1 Bayern Munchen
Kingsley Coman (53′)
Þá tóku Ítalíumeistarar AC Milan á móti Tottenham.
Heimamenn fengu draumabyrjun þegar Brahim Diaz skoraði á 7. mínútu.
Fyrri hálfleikur var fremur jafn og gerðu gestirnir frá Englandi sig líklega til að skora þegar leið á hann.
Milan leiddi hins vegar í hálfleik.
Heimamenn fengu betri tækifæri til að skora í seinni hálfleik. Meira var þó ekki skorað í leiknum.
AC Milan 1-0 Tottenham
Brahim Diaz (7′)