KSÍ og sprotafyrirtækið SoGreen hafa gert samning til fimm ára þess efnis að KSÍ kaupi kolefniseiningar af SoGreen.
SoGreen er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem er að hefja framleiðslu nýrrar tegundar kolefniseininga á heimsvísu: Kolefniseininga sem myndast með því að tryggja stúlkum í lágtekjuríkjum menntun.
SoGreen hefur látið að sér kveða á hinum ört vaxandi íslenska kolefnismarkaði á undanförnum tveimur árum, m.a. með þátttöku í Snjallræði, hraðli á vegum Icelandic Startups (nú KLAK) og Höfða friðarseturs. Þá hlaut SoGreen Sprota – styrk Tækniþróunarsjóðs árið 2021 auk fjölda sjálfbærni- og frumkvöðlastyrkja fyrirtækja í íslensku atvinnulífi.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ: „Við hjá KSÍ hlökkum mjög til samstarfsins við SoGreen og erum afskaplega ánægð með samninginn. Við höfum um nokkurt skeið leitað leiða til að vera virkari í loftslagsmálum og kolefnisjöfnun og líst mjög vel á þá leið að styðja við menntun stúlkna þar sem þörfin er mikil. Við ættum öll, sem samfélag, að taka skref í átt að samfélagslegri ábyrgð og öll skref telja í baráttunni við loftslagsvána“.