Jorginho vill samkvæmt ítölskum fjölmiðlum snúa aftur til Napoli í heimalandinu.
Jorginho er orðinn 31 árs gamall. Hann hefur verið á mála hjá Chelsea síðan 2018 en hann kom frá Napoli.
Samningur hans í Lundúnum rennur út í sumar og vill hann snúa aftur til Suður-Ítalíu.
Miðjumaðurinn þyrfti hins vegar að taka á sig launalækkun til að það gengi upp svo það er ekki víst hvort af verði.
Í vikunni sagði Jorge Santos, umboðsmaður Jorginho, að það væri í forgangi að ræða nýjan samning við Chelsea.
„Við höfum fengið tilboð frá Chelsea um nýjan samning. Það er því í forgangi hjá okkur að ræða við Chelsea,“ segir hann í samtali við fjölmiðla.