Tveir stuðningsmenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa tekið eigið líf eftir að hafa endurupplifað skelfilega atburði á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í París í maí.
Afar illa var staðið að skipulagningu leiksins. Troðningur myndaðist fyrir utan völlinn á meðal áhorfenda.
Franska lögreglan hefur þá verið harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð sín, en hún beitti táragasi á marga saklausa stuðningsmenn. Leiknum var frestað um hálftíma vegna atburðanna.
Peter Scarfe, hjá samtökum til stuðnings fólks sem lifði af Hillsborough-slysið hræðilega árið 1989, hefur stigið fram og sagt að tveir sem voru staddir í París umrætt kvöld í maí hafi tekið eigið líf.
Alls létust 97 stuðningsmenn í slysinu á undanúrslitaleik FA-bikarins 1989 sökum troðnings.
Stuðningsmennirnir tveir réðu ekki við endurupplifanir frá Hillsborough sem þeir gengu í gegnum eftir kvöldið í París.
Scarfe segir að alls hafi þrír í samtökunum tekið eigið líf á þessu ári.