Jamie Carragher, goðsögn Liverpool, er orðinn hræddur við að gagnrýna Brasilíumanninn Richarlison sem spilar með Tottenham.
Carragher var ekki hrifinn af látbrögðum Richarlison gegn Nottingham Forest í gær er Tottenham vann 2-0 útisigur.
Carragher vildi þó ekki fara yfir strikið í gagnrýni sinni á sóknarmanninum sem fékk högg í leiknum en féll í grasið nokkrum sekúndum síðar.
Það er víst að Carragher vildi nota harðari orð í garð leikmannsins en hélt aftur af sér í samtali við Sky Sports.
,,Ég ætla ekki að segja neitt. Ég vil ekki koma mér í vandræði á meðal stuðningsmanna Tottenham og Everton,“ sagði Carragher.
,,Hann leit út fyrir að fá högg sem gæti verið sársaukafullt en það leið svo langur tími í að hann féll í grasið. Hvað á ég að gera við þennan mann?“