Jonathan Woodgate hefur tjáð sig um martröðina hjá Real Madrid en hann upplifði alls ekki sjö dagana sæla á Spáni.
Real borgaði 13,4 milljónir punda fyrir Woodgate árið 2003 en hann hafði spilað glimrandi vel með Newcastle.
Meiðsli settu stórt strik í reikning varnarmannsins á Spáni sem átti einn versta fyrsta leik fyrir félag sem hægt er að ímynda sér.
Brasilíska goðsögnin Ronaldo þekkti það sem Woodgate gekk í gegnum en hann var sjálfur mikið meiddur á sínum ferli og ekki alltaf í sínu besta formi.
Ronaldo var sá fyrsti til að hugga Woodgate eftir martröðina í fyrsta leik þar sem hann skoraði bæði sjálfsmark og var rekinn af velli.
,,Ég beið heilt ár eftir fyrsta leiknum og skoraði svo sjálfsmark og fékk rautt spjald,“ sagði Woodgate.
,,Fyrsti leikurinn var mjög erfiður en eftir leik þá ræddi ég við sjúkraþjálfarana og Ronaldo var sá fyrsti og eini sem kom að mér og spurði hvernig ég hefði það. Ég sagðist vera miður mín en hann sagði mér að hafa engar áhyggjur.“
,,Hann hafði glímt við meiðsli hjá bæði Inter og AC Milan svo hann þekkti ferlið. Hann vissi hvað ég var að ganga í gegnum og sá hversu hart ég lagði að mér til að komast í form.“