Ríkisstjórn Bretlands hefur gefið grænt ljós á það að íþróttafélög hefji æfingar að fullum krafti.
Í rúma viku hafa lið á Englandi getað æft í litlum hópum en nú er leyfilegt að setja allt á fullt. Leikmenn þurfa ekki lengur að virða tveggja metra regluna. Eitt af því sem þarf að leysa er hvar leikirnir verða spilaðir, mörg félög vilja spila á heimavelli sínum en það gæti reynst erfitt.
Lögreglan hefur viljað að spilað sé á hlutlausum völlum svo hægt sé að koma í veg fyrir að stuðningsmenn hópist saman fyrir utan vellina. Verður það rætt í vikunni á meðal félaganna í deildinni. Ef boltinn fer að rúlla verður veisla fyrir sófakartöflur út um allan heim, stefnt er að því að hafa alla leiki í beinni útsendingu.
Nú segja ensk blöð að lögreglan hafi gefið grænt ljós á að félögin spili á heimavelli sínum en að stórleikir verði spilaðir á hlutlausum velli. Hins vegar þurfa stórleikir að fara fram á hlutlausum velli til að koma í veg fyrir að fólk hópist saman fyrir utan vellina.
Þannig yrði leikurinn þar sem Liverpool verður enskur meistari ekki spilaður á Anfield og fleira í þeim dúr.