Real Madrid 2 – 2 Bayern Munich
0-1 Joshua Kimmich (3′)
1-1 Karim Benzema (11′)
2-1 Karim Benzema (46′)
2-2 James Rodriguez (63′)
Real Madrid tók á móti Bayern Munich í síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld en leiknum lauk með 2-2 jafntefli.
Joshua Kimmich kom gestunum yfir strax 3. mínútu en Karim Benzema jafnaði metin fyrir Real Madrid, átta mínútum síðar.
Bæjarar pressuðu heimamenn stíft allan fyrri hálfleikinn og fengu nokkur góð færi en tókst ekki að skora og staðan því 1-1 í leikhléi.
Á 46. mínútu gerði Sven Ulreich, markmaður gestanna sig sekan um skelfileg mistök þegar hann ætlaði að hreinsa frá marki.
Hann hitti ekki boltann, rann á rassinn og Karim Benzema þurfti bara að rúlla boltanum yfir línuna, sem og hann gerði og staðan því orðin 2-1 fyrir Real Madrid.
James Rodriguez, sóknarmaður Bayern Munich jafnaði hins vegar metin fyrir Bæjara á 63. mínútu og opnaði einvígið upp á gátt.
Gestirnir reyndu allt sem þeir gátu til þess að skora þriðja markið en heimamenn vörðust vel og lokatölur því 2-2 í hörkuleik.
Fyrri leik liðanna lauk með 2-1 sigri Real Madrid og Real vinnur því viðureignina, samanlagt 4-3 og er spænska liðið því komið í úrslit keppninnar, þriðja árið í röð.