fbpx
Þriðjudagur 14.maí 2024

„Það hefur nú verið venjan hérna í prestakallinu að láta þá nánustu vita þegar dauðsföll verða“

Um nýjar vestfirskar þjóðsögur

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 8. ágúst 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundur: Einar Kárason.


Þegar er svona sumar langar mig alltaf vestur á firði þar sem ég hef átt svo margar góðar stundir og allar mínar rætur liggja til. Það var kannski þess vegna sem ég tók á dögunum ofan úr hillu nokkur hefti af „Hundrað og ein ný vestfirsk þjóðsaga.“ En þær skráði Gísli heitinn Hjartarson frá Ísafirði. Eftir hans dag voru gefin út nokkur hefti í viðbót og hétu þá 99 vestfirskar þjóðsögur, og lögðu þar meðal annarra hönd á plóg rithöfundarnir Finnbogi Hermannsson og Hafliði Magnússon. Þessar gamansögur eru í dæmigerðum þjóðlegum anda, segja frá kúnstugum tilsvörum, bæði orðheppni og flumbrugangi, einkennilegum og sérkennilegum mönnum. Þannig sögur hafa eflaust verið sagðir síðan land byggðist, og oft hafa sagnir af því tagi verið gefnar út á bók og skráðar, af mismikilli hind reyndar. Það getur verið vandaverk að taka þannig sögur, sem flestar eiga sér uppruna í munnlegri frásögn, og koma þeim almennilega til skila í prentmáli; margt getur tapast á þeirri leið. Sögurnar eiga kannski mikið undir því hvernig sá sem vitnað er til ber málið fram, kúnstpásur og kækir geta horfið í prentmálinu og oft er mikilvægt að þekkja deili á helstu persónum til að skilja grínið. Þetta geta reyndar kunnáttumenn, og oft lánast þetta vel í Nýju vestfirsku þjóðsögunum.

Íslenzk fyndni

Haft eftir gömlum vini séra Gunnars að hann væri misskilið séní.
Gunnar Björnsson Haft eftir gömlum vini séra Gunnars að hann væri misskilið séní.

Úr því við erum farin að velta þessu fyrir okkur þá er rétt að rifja upp þann fræga sagnaflokk „Íslensk fyndni.“ Á árunum 1936–1961 gaf sagnaflokkinn út Gunnar Sigurðsson frá Selalæk, lögfræðingur og þingmaður með meiru, en um þau hefti sagði Sveinbjörn I. Baldvinsson eitt sinn í blaðagrein: „Stundum hefur það orð legið á verkinu að það fyndnasta við það sé hvað það er undursamlega lítið fyndið og þá vegna þess hve sögurnar og vísurnar eru oft staðbundnar og þarfnast næstum náinna kynna af söguhetjunum til að njóta sín.“ Og sannleikurinn er vissulega sá að mjög erfitt er stundum að sjá einhvern vott af einhverju kímilegu við nefndar skrýtlur.

Húmorinn er reyndar ærið kallalegur, enda fjalla næstum allar sögurnar um karlmenn og oft þeirra blautlegu athugasemdir.

En vegna þess hve titill heftanna er stór og í rauninni alhæfandi, þá hafa margir bæði í ræðu og riti haft það til marks um lélegan húmor Íslendinga hvað sögurnar í umræddum heftum falla oft dauðar niður. En þá eru menn óneitanlega að láta yfirskriftina blekkja sig; hefði titillinn verið annar er eins líklegt að menn myndu ekkert alhæfa út frá honum, heldur bara sjá að þetta eru sögur úr stoltum flokki þjóðsagna af þessu tagi sem flestar eru betur sagðar; þær segja ekkert um kímnigáfu neinna annarra en skrásetjarans sjálfs. Á sama tíma og þær voru færðar í letur var verið um allt land að hripa niður miklu fyndnari og betur sagðar sögur, að maður tali nú ekki um bókmenntir sömu ára, og það þótt maður nefni ekki afburða húmorista eins og Þórberg Þórðarson eða Halldór Laxness. Íslensk fyndni verður ekki endilega að henni þótt einhver höfundur kunni að kalla sögur sínar því nafni, og þetta mættu menn hafa í huga næst þegar þeir hrapa að stórum ályktunum sem aldrei hefðu komið þeim í hug ef bókaflokkurinn hefði heitið „Kerskni úr ýmsum áttum“ sem hefði verið jafn nærtækt.

Upp og ofan eins og gengur

„Á Flateyri er aldrei spurt hvenær menn byrja heldur hvenær þeir eru búnir.“
Flateyri „Á Flateyri er aldrei spurt hvenær menn byrja heldur hvenær þeir eru búnir.“

Mynd: © DV ehf / Sigtryggur Ari Jóhannsson

En víkjum aftur að Hundrað og einni nýrri vestfirskri þjóðsögu, en sex hefti af átta keypti ég fyrir nokkrum árum af útgefandanum sem var þá með lítinn söluskúr fyrir bækur Vestfirska forlagsins niðri við höfn á Þingeyri við Dýrafjörð. Það eru alveg hreinar línur að margar af sögunum í bókunum eru afbragðsvel sagðar, hreinar perlur, þótt gæðin séu reyndar afar misjöfn eins og að líkum lætur. Húmorinn er reyndar ærið kallalegur, enda fjalla næstum allar sögurnar um karlmenn og oft þeirra blautlegu athugasemdir. Og þótt ég sé reyndar orðinn dálítið leiður á langdregnu kveini um karlrembu í bókum, verð ég samt að segja að í þessum kverum sem hér um ræðir eru athugasemdir um konur stundum hreinlega grófar og hljóta sumar að vera meiðandi þegar fólk er nafngreint.
En þótt sögurnar séu kallalegar þá eru konur þó hetjur þeirra innan um, eins og ein albesta sagan að mínu mati, en hún er úr bindi númer tvö, heitir „Hvort er séní“:

„Í fyrirsögn samantektar DV um séra Gunnar Björnsson í Holti í Önundarfirði var haft eftir gömlum vini séra Gunnars, að hann væri misskilið séní.
Nokkru síðar hringdi blaðamaður í Holt og frú Ágústa Ágústsdóttir, eiginkona séra Gunnars, kom í símann.
„Hvernig er að vera í hjónabandi með séní?“ spyr blaðamaðurinn.
„Ég get nú lítið sagt um það“, svarar frú Ágústa. „Þú ættir frekar að spyrja manninn minn.““

Séra Baldur í Vatnsfirði

Ýmsir menn koma mikið við sögu í þessum þáttum, og þá gjarnan vegna orðheppni sinnar. Þeirra á meðal er sá frægi klerkur og prófastur Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði, sem lést í elli fyrir tæpum þremur árum. Um séra Baldur var eitt sinn gerður skemmtilegur sjónvarpsþáttur, og sá sem þessar línur skrifar kynntist hinum aldna prófasti þannig að hann hringdi gjarnan í mig snemma árs eftir að hafa lesið þá nýútkomna bók og vildi ræða efni hennar og ýmislegt annað við höfundinn; urðu það oft skemmtileg símtöl, sem enduðu á þann veg að hann sagði: „Ég heyri betur í þér góði“. Ég er ekki með öll hefti vestfirsku þjóðsagnanna undir höndum, en ein frægasta sagan af Baldri og er að mig minnir í fyrsta heftinu og á þá leið að eitt sinn var hann að aka um Ísafjarðardjúp og kom þar fram á svínshræ, sem trúlega hafði dottið af sláturbíl. Klerki þótti óþrifnaður af þessu, farið að slá í hræið og fluga að gjóta í augntóftir svo hann hringdi í lögregluna á Ísafirði og bað hana að sjá um að þetta yrði fjarlægt. Sá sem varð fyrir svörum á lögreglustöðinni þekkti prófastinn og svaraði í gamansömum tón: „Hvern andskotann ertu að hringja í okkur út af þessu? Við skiptum okkur ekkert af dauðu svíni inni í Djúpi.“ Þá sagði klerkur: „Já, já, góði. Þetta er nú allt í besta lagi. En það hefur nú verið venjan hérna í prestakallinu að láta þá nánustu vita þegar dauðsföll verða.“

Sögurnar eiga kannski mikið undir því hvernig sá sem vitnað er til ber málið fram, kúnstpásur og kækir geta horfið í prentmálinu og oft er mikilvægt að þekkja deili á helstu persónum til að skilja grínið.

Önnur saga af séra Baldri var einhvern veginn á þá leið að hann hafði gumað af veiðilendum sínum inni í Djúpi og hvað hægt væri að háfa þar marga lunda á einum degi, og bauðst jafnframt til að lána mönnum háfa ef þeir kæmu og vildu reyna sig. Einhverjir tóku hann á orðinu, komu og veifuðu háfunum daglangt en höfðu sáralítið upp úr krafsinu. Þeir skömmuðu svo klerkinn og spurðu hvers vegna þeir hefðu fengið svona lítið í samanburði við það sem hann hefði sagt. Er skammarlesturinn þagnaði sagði séra Baldur: „Gestaháfar góði, gestaháfar.“

Vagnstjórinn

Annar maður sem verður efni í nokkrar góðar sögur í þessum heftum er Guðbjartur Jónsson sem kallaður var vagnstjóri er hann rak veitingahúsið Vagninn á Flateyri. Hann þótti fljótur að hugsa en fór stundum fram úr sér í orðatiltækjum, að því er hermt er; um pólitískt álitamál á hann að hafa sagt: Ég er hissa á hvað fáir vita þetta, því þetta vita allir!
Ein afbragðsfín saga er svona í meðförum Gísla heitins í fimmta heftinu:

„Guðbjartur vagnstjóri Jónsson á Flateyri var eitt sinn fenginn til að leysa af í beitningu í Bolungarvík og tók hann ekki í mál að fara upp á annað en beita tíu bala á dag.
Fyrsta morguninn mætti Guðbjartur klukkan níu. Landformaðurinn tók óblíðlega á móti honum og gerði honum það ljóst á beituskúramáli, að hér byrjuðu menn að beita klukkan sex en væru ekki að drattast til vinnu klukkan níu að ganga tíu, því allt þyrfti að vera búið klukkan þrjú á daginn.
Guðbjartur svaraði þessu litlu, hóf að beita og kláraði sína tíu bala. Þegar hann fór heim klukkan tvö sagði hann um leið og hann fór:
Á Flateyri er aldrei spurt hvenær menn byrja heldur hvenær þeir eru búnir.
Þegar Guðbjartur kom aftur til Flateyrar fóru menn að ræða þetta við hann. Var þá til þess tekið hvað hann hefði verið fljótur með þessa tíu bala, ekki nema fimm klukkutíma. Það þýddi að hann hefði beitt að meðaltali tvo bala á klukkutíma.
Þá svaraði Guðbjartur af hógværð:
Það er ekki lengi gert að beita í klukkutíma.“

Tvær í lokin

Úr því að nú fer í hönd mikil ferðahelgi læt ég hér fylgja í lokin kjarnann úr tveimur sögum úr þessum bókaflokki, sem upplagt er að lesa upp fyrir ferðafélaga á löngum akstri. Í þeirri fyrri segir frá Sigurði Þórðarsyni, bónda á Laugabóli í Nauteyrarhreppi í Djúpi, en hann var sagður hafa haft gaman af að ýkja er hann sagði sögur. Eitt sinn hafði honum áskotnast forláta riffill með kíki, og Matthías Bjarnason alþingismaður á að hafa spurt hann hvort riffillinn væri ekki góður?

„„Minnstu ekki á það verkfæri“, sagði Sigurður. „Það geigar ekki skot. Ég get sagt þér að hann Jónsi gamli hérna á Bjarnastöðum hinum megin við fjörðinn bað mig að skjóta fyrir sig hrút. Ég nennti ekki að fara fyrir Ísafjörðinn og sagði honum að fara með hrútinn út um kvöldið klukkan níu og standa við fjárhúsið. Ég væri kominn með svo góðan riffil og það væru nú ekki nema tveir kílómetrar yfir fjörðinn. Jónsi gamli kom út með hrútinn á umræddum tíma og stóð með hann í klofinu við fjárhúshornið. Ég skaut svo yfir fjörðinn og hrúturinn steinlá.“
„Mikill andskotans snillingur ertu, Siggi“, segir Matti.
„Það er nú ekkert“, segir Sigurður, en ég dáðist að karlskrattanum að þora að hafa hrútinn í klofinu.““

Og úr því séra Gunnar Björnsson var nefndur hér fyrr í pistlinum þá kemur þessi hér:

 „Á prestskaparárum séra Gunnars Björnssonar í Bolungarvík (1972–82) varð hann þess áskynja, að rígfullorðið sambýlisfólk, sem bjó á Mölunum, hefði aldrei verið gefið saman í hjónaband. Lifði í synd, sem kallað er. Séra Gunnar hafði áhyggjur af þessu og heimsótti hjúin. Setti prestur á langar tölur yfir þeim og leiddi þeim fyrir sjónir að þessi syndsamlegi lifnaður gengi ekki. Þegar prestur hafði drukkið kaffi, þakkað fyrir sig og kvatt, sagði konan við sambýlismann sinn: Heyrðu elska, heldurðu ekki að við ættum að gifta okkur eins og presturinn sagði? Karlinn svaraði: Hver heldurðu að vilji okkur?“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

KA dæmt til að greiða Arnari tæpar ellefu milljónir auk dráttarvaxta

KA dæmt til að greiða Arnari tæpar ellefu milljónir auk dráttarvaxta
Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

Lét meintan sóðaskap fara í taugarnar á sér og framdi þrefalt morð

Lét meintan sóðaskap fara í taugarnar á sér og framdi þrefalt morð
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Enn eitt stórliðið ekki með í tölvuleiknum vinsæla

Enn eitt stórliðið ekki með í tölvuleiknum vinsæla
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Sátu fyrir fangaflutningabíl í Frakklandi – Skutu þrjá fangaverði til bana og frelsuðu fíkniefnafól sem ber viðurnefnið „Flugan“

Sátu fyrir fangaflutningabíl í Frakklandi – Skutu þrjá fangaverði til bana og frelsuðu fíkniefnafól sem ber viðurnefnið „Flugan“
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Helena á góðgerðarviðburði með stórstjörnum og fyrrverandi fegurðardrottningunum sem sprengdu allt upp í síðustu viku

Helena á góðgerðarviðburði með stórstjörnum og fyrrverandi fegurðardrottningunum sem sprengdu allt upp í síðustu viku
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Sjáðu lið tímabilsins hjá Neville og Carragher – Eru sammála um sjö leikmenn en Carragher skilur stórt nafn eftir útundan

Sjáðu lið tímabilsins hjá Neville og Carragher – Eru sammála um sjö leikmenn en Carragher skilur stórt nafn eftir útundan