fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Lög og reglur þverbrotnar í stjórnsýslunni í Kópavogi

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Mánudaginn 11. júní 2018 11:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Veitingastaðurinn Videomarkaðurinn, sem er einnig einn stærsti spilakassasalur landsins, hefur haft vínveitingaleyfi frá árinu 2008. Ekki er úrvalið mikið á þessum veitingastað og einu veitingarnar sem staðurinn býður upp á eru pylsur, en úrvalið af sósum er þó ágætt. Því miður er ekki lengur hægt að leigja vídeóspólur hjá þeim, þótt að nafnið á staðnum gefi það til kynna, en þar er þó mikið úrval af rafrettum í boði. Þó svo að staðurinn falli ekki undir skilgreiningu laga um veitingastaði og hafi aldrei gert síðan 2008 fá hann aftur og aftur endurnýjað vínveitingarleyfi sitt. Þó svo að staðurinn sé einn stærsti spilakassasalur landsins með um 9% af öllum spilakössum landsins er hann ekki skilgreindur sem spilasalur, heldur sem veitingastaður. DV hefur gögn undir höndum sem sýna hvernig byggingarfulltrúar Kópavogs og fulltrúar heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs hafa síðan 2008 ekki farið að lögum og reglum í umsögnum sínum til sýslumanns vegna útgáfu vínveitingaleyfis. Er það lagaleg skylda þessara stofnana að gefa réttar upplýsingar til sýslumanns ásamt því að heilbrigðiseftirlitið hefur skilgreiningarskyldu varðandi starfsemina. DV hefur áður fjallað um vínveitingaleyfi Videomarkaðarins. Þar kom fram að fyrirtækið hafi bæði selt ungmennum undir aldri áfengi ásamt því að bjóða viðskiptavinum sínum að drekka á staðnum eða taka með út af staðnum. Samkvæmt áfengislögum er óheimilt að taka áfengi út af vínveitingastað.

Heilbrigðiseftirlitið misskilur lögin sem þeir eiga að framfylgja

Þegar gögn málsins eru skoðuð þá er gífurlega erfitt að sjá hvernig fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins tókst að skilgreina Videomarkaðinn sem veitingastað þar sem ekkert eldhús er á staðnum eða sæti fyrir gesti samkvæmt teikningum, séu sætin fyrir framan spilakassana undanskilin, en afar erfitt er að sitja með disk og hnífapör í þeim sætum.

DV hafði samband við Guðmund H. Einarsson, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs, til að fá útskýringar á því, samkvæmt þeirra eigin orðum í þeirra eigin eftirlitsskýrslu, hvernig sjoppa með pylsusölu og nammibar gæti verið skilgreind sem veitingastaður. Einnig hvernig staðurinn fór úr því að vera, samkvæmt eftirlitsskýrslu þeirra eigin eftirlits, úr sjoppu með pylsusölu og nammibar í að verða matvöruverslun og veitingastofa í að verða svo allt í einu veitingastaður þegar eftirlitið sendi frá sér umsögn til sýslumanns vegna útgáfu vínveitingaleyfis í flokki þrjú. Sá flokkur er ætlaður fyrir umfangsmikla áfengisveitingastaði þar sem leikin er hávær tónlist og staði sem kalla á meira eftirlit eða löggæslu. Guðmundur tjáði DV að samkvæmt hans skilningi á lögum og reglum þá sé ekkert athugavert við þetta og ekkert óeðlilegt við þessi vinnubrögð. Þegar hann var spurður af hverju umsögnin til sýslumanns vegna útgáfu vínveitingaleyfisins og svo starfsleyfis staðarins sem eftirlitið gæfi út væri ekki sú sama, sagði Guðmundur að svona túlkaði eftirlitið þetta. „Við teljum okkur ekki að þurfa að útskýra það frekar.“ Aðspurður hver bæri ábyrgð á þessum ákvörðunum svaraði Guðmundur: „Ég ber auðvitað ábyrgð á öllu.“ Einnig var hann spurður af hverju heilbrigðisnefnd hefði ekki verið upplýst um að í eftirlitsskýrslu eftirlitsins segði orðrétt: „um er að ræða sjoppu með pylsusölu og nammibar“.

„Það er líka þarna veitingahús, það er verið að selja áfengi þarna. Svona var þetta afgreitt og þú hefur gögnin,“sagði Guðmundur. Taka skal fram að Videomarkaðurinn selur áfengi, þökk sé jákvæðum umsögnum meðal annars heilbrigðiseftirlitsins, byggingarfulltrúa Kópavogs og bæjarráðs Kópavogs sem öll gáfu veitingastaðnum Videomarkaðnum jákvæða umsögn um rekstur vínveitingastaðar í Hamraborginni.

Skilgreiningin á veitingahúsi samkvæmt lögunum er staður með fjölbreyttar veitingar í mat og drykk og fulla þjónustu. Í veitingahúsi skal vera starfandi maður með fullnægjandi þekkingu á framreiðslu, svo það er augljóst að heilbrigðiseftirlitið er ekki að skilgreina þennan stað rétt samkvæmt lögunum.

Heilbrigðisnefnd sér um eftirlit með heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogsbæjar. Hörður Svavarsson er formaður þeirrar nefndar. Allar umsagnir sem heilbrigðiseftirlitið sendir frá sér fara í gegnum nefndina og þegar hann var spurður út í ítrekuð brot eftirlitsins og hvernig eigi að bregðast við þeim sagði hann: „Það er bara eitthvað stjórnsýslumál sem þarf að höndla samkvæmt stjórnsýslulögum, við þurfum bara að leita okkur ráðgjafar vegna þess. Ef þetta er gefið út á röngum forsendum þá hlýtur að vera hægt að afturkalla starfsleyfið.“

Byggingarfulltrúi skoðaði ekki allt húsnæðið

Jóhannes Pétursson, aðstoðarbyggingarfulltrúi Kópavogs, gaf jákvæða umsögn fyrir hönd byggingarfulltrúa til sýslumanns varðandi Videomarkaðinn. Þegar hann var spurður hvort hann hafi farið í vettvangsferð á staðinn til að geta gefið rétta umsögn viðurkenndi hann að hann hefði ekki skoðað allt húsnæðið en sagðist hafa farið þangað reglulega. „Ég kaupi mér oft pylsu þarna eða eitthvað,“ sagði hann til að fullvissa blaðamann um að hann þekkti nú vel til staðarins.

Blaðamaður spurði hvort hann hefði kynnt sér lögin sem hann átti að taka tillit til þegar hann skoðaði húsnæðið og hann svaraði: „Ég las ekki þessi lög áður en ég fór yfir þetta.“ Seinna í símtalinu viðurkenndi hann að hann hefði lesið lögin, en ekkert sérstaklega pælt í þeim. Þegar blaðamaður spurði hvort hann hefði einfaldlega afritað svar byggingarfulltrúa vegna endurnýjunar á leyfinu frá árinu 2010, þar sem þau líta nánast alveg eins út, staf fyrir staf, svaraði Jóhannes einfaldlega: „Jájá, ég gerði það.“ Þegar teikningar af staðnum eru skoðaðar er ekkert eldhús til að matreiða ofan í gesti á teikningunum né er gert ráð fyrir sætum fyrir verðandi matargesti, að frátöldum sætum sem eru fyrir framan spilakassana. Þessar teikningar hafa alltaf verið sendar með umsögnum bæði byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlitsins til sýslumanns síðustu 10 ár og hefur vínveitingaleyfið alltaf verið endurnýjað þrátt fyrir að teikningar sýni ekkert eldhús fyrir veitingastaðinn.

Bæjarráð Kópavogs veitti jákvæða umsögn byggt á röngum gögnum

Til þess að staður geti fengið vínveitingaleyfi þarf hann að fá jákvæða umsögn frá nokkrum aðilum, meðal annars bæjarráði þess sveitarfélags sem hann er rekinn í. Bæjarráð Kópavogs hefur frá 2008 alltaf gefið Videómarkaðnum jákvæða umsögn vegna leyfisumsóknar staðarins til Sýslumanns höfuðborgarsvæðisins, byggt meðal annars á gögnum sem komu frá byggingarfulltrúa bæjarins. Svo virðist sem bæjarráð hafi ekki haft réttar upplýsingar í höndunum þegar það gaf staðnum aftur og aftur jákvæða umsögn, því eins og segir hér að framan skoðaði aðstoðarbyggingarfulltrúi ekki alla bygginguna við síðustu umsókn fyrirtækisins ásamt því að taka ekki eftir því að ekkert eldhús eða sæti fyrir matargesti er á teikningunum og einu teikningar sem hafa verið notaðar við allar umsóknir síðan 2008 eru frá árinu 2005. Engar breytingar hafa verið á húsnæði síðan.

DV hafði samband við Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóra Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, og fór yfir málið með honum. Að hans sögn ætti þetta að vera skilgreint sem söluturn og aldrei að vera skilgreint sem veitingastaður miðað við lýsingar á staðnum og aldrei ætti að veita söluturni vínveitingaleyfi í flokki þrjú. Svo virðist sem vinnubrögðin í Kópavogi séu ekkert lík þeim vinnubrögðum sem þekkjast í Reykjavík. Einnig samkvæmt heimildarmönnum DV, sem þekkja vel til þessara mála, þykir afar furðulegt að söluturn komist svo lengi upp með að fá ítrekað endurnýjun á vínveitingaleyfi þegar hann augljóslega uppfyllir engin skilyrði til þess og að engin eftirlitsstofnun hafi gripið fyrr inn í útgáfu vínveitingaleyfisins til þessa söluturns.

Eins og sagt var framar í greininni er Videomarkaðurinn einn stærsti spilasalur landsins en samt sem áður er hann ekki með starfsleyfi til slíkrar starfsemi. Til að getað haft spilakassa með stærri vinningum, eins og spilakassa þar sem fólk getur unnið gullpottinn, þarf staður annaðhvort að vera skráður sem vínveitingastaður eða spilasalur samkvæmt reglugerð dómsmálaráðuneytisins. Séu ársreikningar fyrirtækisins skoðaðir þá sést vel að ein meginstarfsemi Videomarkaðarins er að reka spilasal þar sem heildartekjur af fjárhættuspilum árin 2015 og 2016 skiluðu fyrirtækinu 207 milljónum í tekjur. Langstærstur hluti húsnæðisins fer einnig undir spilakassa. Það er mun einfaldara að fá leyfi fyrir vínveitingahúsi en spilasal og er ekki erfitt að sjá af hverju fyrirtækið hefur farið þá leið að sækja um leyfi fyrir vínveitingar í stað spilasalar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi