Fréttir

Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn fá 1,3% afturvirka launahækkun

Blikkna í samanburði við afturvirkar hækkanir sem forstjórar ríkisstofnanna fengu

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 14. febrúar 2018 11:28

Laun félagsmanna aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríkinu verða hækkuð um 1,3 prósent að meðaltali til að bæta þeim upp launaskrið á almennum vinnumarkaði. Hækkunin er afturvirk frá 1. janúar 2017 og ætti að koma til framkvæmdar um næstu mánaðarmót hjá félagsmönnum, þar á meðal félagsmönnum í Landssambandi lögreglumanna, Landssambanid slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Tollvarðafélagi Íslands.

Á sama tímabili hækkaði kjararáð laun nokkurra forstjóra ríkisstofnana og biskups Íslands afturvirkt um allt að 20 prósent, vakti það mikla athygli í desember síðastliðnum þegar biskup fékk 18% afturvirka launahækkun frá 1. janúar 2017. Þetta þýðir að lögreglumaður með 500 þúsund krónur á mánuði fær 102 þúsund krónur í afturvirka hækkun frá 1.janúar 2017 en á sama tímabili fengu toppar ríkisstofnana milljónir í afturvirkar launahækkanir.

Samningarnir sem um ræðir eru hins vegar ekki kjarasamningar heldur launaþróunartrygging sem eiga að tryggja að opinberir starfsmenn sitji ekki eftir á meðan laun hækka á almennum vinnumarkaði. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir jákvætt að tryggingin sé í höfn. „Ákvæðinu um launaþróunartryggingu er ætlað að tryggja okkar félagsmönnum að laun þeirra muni þróast á sama hátt og laun á almennum vinnumarkaði. Nú hækka launin hjá hluta af okkar fólki eftir fyrstu mælingu en svo verða gerðar tvær mælingar til viðbótar vegna áranna 2017 og 2018 sem geta haft áhrif á launin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af