fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Greindist með krabbamein á hátindi ferilsins: „Það gleymdist að segja mér hvað lífslíkurnar voru taldar litlar í upphafi“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 13. júní 2018 21:50

Elísabet Ronaldsdóttir ásamt elsta syni sínum, Mána Hrafnssyni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elísabet Ronaldsdóttir, einn færasti kvikmyndaklippari landsins, stendur á hátindi feril síns. Hún klippti Hollywood-stórmyndina Deadpool 2 sem nú fer sigurför í miðasölum kvikmyndahúsa um allan heim. Slík verkefni útheimta gríðarlegar fórnir og vinnu en á bak við tjöldin háði Elísabet enn erfiðari baráttu. Hún greindist með alvarlegt krabbamein meðan á verkefninu stóð og um tíma leist aðstandendum hennar ekki á blikuna. DV hefur ítrekað reynt að fá kvikmyndagerðarkonuna í viðtal um þetta ótrúlega tímabil í lífi hennar en ekki haft erindi sem erfiði. Að lokum fór ritstjórn blaðsins krókaleiðir og stakk upp á því að elsti sonur Elísabetar, Máni Hrafnsson, tæki viðtalið fyrir hönd DV. Það hitti í mark og hér á eftir fer einstakt spjall mæðginanna.

Los Angeles, júní 2018  

Ég sting kollinum inn í herbergi til mömmu. „Hei mamma, DV var að hafa samband og spyr hvort ég væri til í að taka viðtal við þig?“ Mamma lítur upp úr fartölvunni, ranghvolfir augunum, eins og hún gerir alltaf þegar ég er með eitthvert vesen. „Af hverju í ósköpun heldur DV að einhver hafi áhuga á að heyra í mér.“

Ég byrja að þylja upp að hún sé auðvitað stórmerkileg kona, þjóðþekktur kvikmyndagerðarmaður og Hollywoodstjar … „Bla bla bla,“ grípur hún fram í fyrir mér. „Lí é út ens o einhve Hollywoo-stjana!?“ Það er erfitt að skilja nákvæmlega hvað hún er að segja með muninn fullan af lakkrís, þannig að ég held áfram og segi henni að ég geri ráð fyrir að þetta sé tengt frumsýningunni á Deadpool 2.

Mamma veit alveg af hverju DV hefur áhuga á viðtali við hana. Hún vinnur kannski við kvikmyndagerð en það er ástæða fyrir því að hún er á bak við tjöldin. Henni hefur alltaf fundist athyglin frekar vandræðaleg.

Ég fullvissa mömmu um að þetta verði ekki yfirborðskennt viðtal þar sem ég „name-droppa“ hvað hún hefur unnið náið með mörgum stórstjörnum á borð við Keanu Reeves, Charlize Theron eða Ryan Reynolds. „Þau eru ekkert að leita eftir einhverju ódýru „clickbait“-viðtali með fyrirsögnum um hvernig þú hafnaðir stórmyndum á borð við Captain Marvel og Robin Hood. Þau hafa einfaldlega bara áhuga á skoðunum þínum á bransanum, konum í kvikmyndagerð og þú veist, hvernig þér gengur að halda þér á lífi.“

Elísabet í faðmi Deadpool

Mamma starir beint í gegnum mig. Ég þekki þetta augnaráð vel, hún er byrjuð að hugsa um eitthvað allt annað. Eftir langa þögn segir hún: „Ertu til í að skjótast í Seven Eleven og kaupa meiri lakkrís?“

Ég svara: „Já, ert þú þá til í að gera þetta helvítis viðtal með mér, þau ætla borga mér fyrir þetta, sko.“ Hún hristir hausinn hissa: „Ha, í alvöru?“

Næsta morgun setjumst við niður á uppáhaldskaffihúsinu okkar í Venice, Groundworks. „Jæja, hvar vilt þú byrja?“ spyr mamma hvetjandi. Ég tek upp símann og skrolla gegnum pósthólfið í leit að spurningalistanum sem DV sendi mér. „Sko, hérna er þetta, allar spurningarnar, þetta verður „ísí-písí“. Já, hver er fyrsta spurningin? Hvar ertu fædd?“ Mamma andvarpar: „Er þetta ekki bara eitthvað sem þú setur í innganginn á viðtalinu?“

Elísabet Ólafía Ronaldsdóttir fæddist í Reykjavík 6. júlí 1965. Foreldrar hennar eru Ronald Ögmundur Símonarson, lífskúnstner og Anna Stefánsdóttir þúsundþjalasmiður, dóttir Stefáns Ólafssonar og Júdithar Júlíusdóttir Geirmundssonar … mamma, ég held að þetta sé ekki nógu fyndið. Eigum við ekki að taka krabbameinssöguna til þess að hrista aðeins upp í þessu.

Vancouver, ágúst 2017

„Við vorum við tökur á Deadpool 2 í Vancouver í Kanada. Þar sem Joey, eiginkona þín og tengdadóttir mín fæddist og ólst upp og þið búið hluta af ári. Allir krakkarnir voru farnir heim að byrja skólann eftir gott sumar. Ég veiktist sama dag og Joi „SJ“ Harris dó á setti. Hún missti stjórn á mótorhjólinu sínu og fór í gegnum glervegg. Það voru allir í sjokki og mikið grátið. Við ákváðum að borða hádegismatinn út af fyrir okkur, klippideildin, og pöntuðum einhverja voða fína hamborgara. Ég gat lítið borðað. Man að ég sagði upphátt að þessum borgara liði ekki vel í maganum á mér. Ég útskýrði þessa miklu vanlíðan með sjokkinu eftir atburði dagsins,“ segir mamma.

Líðan hennar versnaði með hverjum deginum sem leið og hún gat lítið nærst. „Ég fór á milli lækna sem ekkert gátu hjálpað. Mætti til vinnu en eyddi meirihluta dags í hnipri uppi í sófa. Var loks greind með brisbólgur, sagt að hvíla mig og drekka mikið vatn. Brisbólgur? Þetta fannst mér undarlegt. Í fyrsta lagi þurfti ég að gúgla allt um brisið, vissi ekki einu sinni almennilega hvar það var og í öðru lagi var ég ekki í neinum áhættuhóp fyrir slíkar bólgur. Ég er sko enginn alkóhólisti og skála bara í  kaffi. Eftir að þið Joey fóruð til New York, þá sprungu blöðrur sem höfðu myndast á brisinu og ég varð lífshættulega veik. Eyddi viku á spítalanum þar sem þau þurrkuðu upp rúmlega einn og hálfan lítra af galli úr maganum á mér, töldu það afleiðingu af gallsteinum sem hefðu skolast í burtu, og svo var ég send heim. Ég var mjög máttfarin og heilsunni hrakaði þrátt fyrir lyfin.ׅ“

Það var þá sem ég, Máni, kom heim og leist ekki á ástand móður minnar. Ég keyrði hana upp á spítala þar sem hún var lögð aftur inn, fékk vökva og næringu í æð og fullt af sterum.

Á sjúkrabeði

„Þarna eyddi ég næstu átta vikunum, í alls konar aðgerðir og vesen sem ég man lítið sem ekkert eftir, en ég man að ég var farin að sætta mig við að ég myndi líklegast ekki lifa þetta af.   Síðan var ég flutt með sjúkraflugi til Cedars Sinai í Los Angeles, sem er eitthvert það flottasta sjúkrahús sem ég hef stigið fæti inn á. Þá var nýlega komið í ljós að ég var með fjórða stigs sortuæxli (e. melanoma) sem hafði sest að í brisinu. Vinnufélagar mínir höfðu haft upp á Dr.Hamid, sem er einn virtasti sérfræðingur heims í þessu tiltekna krabbameini, og af því að kanadísku læknarnir treystu sér ekki til að halda mér á lífi, lögðu félagar mínir í púkk og keyptu undir mig sjúkraflug. Ég man þegar ég komst aftur til meðvitundar hvað ég var hissa á hvað tryggingin mín var yfirgripsmikil að ég fengi einkaflug á milli sjúkrahúsa, þangað til þú sagðir mér sannleikann,“ segir mamma og brosir.

Ein „clickbait“ fyrirsögn: Ryan Reynolds hjálpaði mömmu

Ég horfi íbygginn á mömmu. Vinnufélagarnir sem hún talar um eru leikstjórinn David Leitch, sem mamma hefur tvisvar áður unnið með fyrir Deadpool 2, og aðalleikari myndarinnar, Ryan Reynolds, ein þekktasta kvikmyndastjarna heims. Þeir voru vaktir og sofnir yfir velferð mömmu á meðan hún glímdi við veikindin og báru hluta af kostnaðinum við bestu læknismeðferð sem völ er á í heiminum. Reynolds var svo umhugað um Elísabetu að hann lagði sig allan fram við að létta undir með henni. Meðal annars gladdi hann yngsta son Elísabetar, Loga, með því að klæða sig upp í búning Deadpool og senda drengnum fallega myndbandskveðju. Einhver hefði skrifað Facebook-status um minni uppákomu en ekki mamma.

„Í alvöru mamma, ertu ekki að skauta dálítið mikið yfir þetta að kalla Ryan Reynolds og David Leitch bara vinnufélaga?“ segi ég við hana.  „Máni! Ertu ekki nýbúinn að sannfæra mig um að þetta sé ekki eitthvert ódýrt „clickbait“-viðtal heldur hafi almenningur einlægan áhuga á mér og skoðunum mínum?“ segir hún reiðilega. Ég játa því og biðst brosandi afsökunar, vitandi að ég mun samt koma þessari staðreynd að með einhverjum hætti í viðtalinu.

Mamma heldur ótrauð áfram. „Það sem stendur upp úr eftir þessa erfiðu lífsreynslu er hvað fjölskylda, vinir, vinnu- og stéttarfélagar lögðust á eitt við að koma mér til aðstoðar. Fólk er dásamlegt. Ég er líka svo óendanlega stolt yfir ykkur krökkunum öllum, hvað þið sýnduð mikinn styrk og dugnað og hvað þið voruð úrræðagóð. Ég er bara ekkert viss um að þið væruð svona vel heppnuð ef ég hefði pakkað ykkur inn í bómull með reglulega matmálstíma,“ segir mamma ákveðin. Við brosum til hvort annars. „Ertu ekki sammála því?“

Ég þori ekki að koma mér í frekari vandræði, kinka samþykkjandi kolli og fæ mér sopa af kaffinu. Ég rifja upp okkur mömmu í gamla daga, alltaf labbandi. Þá kenndi hún mér að berjast við veturkonunginn Kára; Bíta berja, klóra, slá. Þannig þrömmuðum við áfram sönglandi, hrímhvít í framan, af því ég var 12 ára þegar mamma eignaðist bíl í fyrsta skipti. „Ertu að beita sömu taktík á krabbann?“ spyr ég.

„Já, ætli það ekki bara. Þegar ég varð veik voru ráðnir þrír klipparar í minn stað á Deadpool 2, en þegar ég útskrifaðist af spítalanum í Los Angeles bauð David, leikstjóri kvikmyndarinnar, mér að bætast í hópinn og koma aftur til vinnu. Eftir að hafa eytt þremur mánuðum rúmliggjandi og ekkert getað borðað, var ég of veikburða til að þvælast mikið um og óvíst hvað ég hafði mikið úthald. Þá var gripið til þess ráðs að koma upp Avid-klippitölvu í fataskáp heima hjá David, en við bjuggum hlið við hlið í Venice, þar sem ég kom og fór eins og hentaði og klippti eftir mínu höfði. Með daglegum göngutúrum og aðstoð þinni og auðvitað mömmu og pabba sem mættu á svæðið og sáu til þess að ég borðaði rétt, tróðu í mig eggjum, lax og gulrótarsafa, óx mér kraftur og fyrir  jólin 2017 var ég farin að keyra upp í 20th Century Fox og vinna fullan vinnudag. Það var mikil gæfa að komast í vinnu og þurfa ekki að sitja aðgerðarlaus að hugsa um krabbamein,“ segir mamma.

Stund milli stríða með tengdadótturinni Joey.

Hún hélt áfram að styrkjast og ákvað svo að kaupa sér hjól og fer nú hjólandi allra sinna ferða. Margir halda kannski að Los Angeles sé flatlendi en það er alls ekki, meira eins og einhver hafi margfaldað Þingholtin og kastað sól á þau. „Sumir eru hræddir við umferðina hér en ég virkilega nýt þess að hjóla og hef hingað til ekki lent í neinum leiðindum. Ver mig að sjálfsögðu með hjálmi, sjálflýsandi jakka, hönskum, fram og aftur ljósum og breiðum dekkjum. Kannski ekkert rosalega smart, en ég hef öryggið í fyrirrúmi,“  segir mamma.

 

Hún bætir við að læknir hafi tjáð henni að að sortuæxlistilfellum væri að fjölga mikið. „Þannig að „plís“ notið sólarvörn, mér er sagt að það skipti máli jafnvel þótt það rigni. Það hefur aldrei fundist á mér blettur, en Sindri minn þarf að fara reglulega og láta fjarlægja bletti af sér.“

Annað æxlið horfið í dag

Mömmu kom aldrei til hugar annað en að sækja sér lækningu í Los Angeles frekar en heima á Íslandi.

„Aðstaðan er allt önnur hér og betri, það þarf til dæmis ekki að senda mig til Danmerkur í Pet-skanna, hann er bara í næsta herbergi, og ég hef ekki þurft að borga krónu af mörg hundruð þúsund dollara sjúkrahúsreikningunum sem mér hafa borist vegna þess að ég bý við þau forréttindi að vera tryggð gegnum stéttarfélagið mitt. En auðvitað eru þessar upphæðir klikkaðar og erfitt að skilja hvernig er hægt að eyða svona miklum peningi í eina auma manneskju á sama tíma og engu er eytt í þá ótryggðu sem þurfa þó alveg jafn mikið á því að halda. En ég er óendanlega þakklát fyrir hversu vel hefur gengið og ekkert viss um að sú væri raunin ef það hefði ekki gleymst að segja mér hvað lífslíkur mínar voru taldar litlar í upphafi,“ segir mamma.

Í dag er staðan sú að annað æxlið er alveg horfið og hitt orðið að agnarsmátt, eftir aðeins rúmlega hálft ár í meðferð sem kallast „immunotherapy“.  „Hún gengur út á að blokka prótein, sem krabbinn notar til að dulbúa sig sem heilbrigðan vef, svo ónæmiskerfið sjái meinið og losi mig við það. Meðferðin hefur lagst vel í mig og ég hef eingöngu einu sinni þurft að leggjast inn vegna aukaverkana. Ég á eftir eina litla aðgerð vegna þess að blöðrur hafa aftur myndast á brisinu, þær innihalda hugsanlega krabbameinsfrumur og þarf að fjarlægja, og síðan held ég áfram í meðferðinni til að tryggja að allur óþverrinn sé horfinn. Það sér fyrir endann á þessu.“

 

Við verðum sammála að þetta sé komið nóg af rausi um krabbameinið, það sé of þunglyndislegt. Við vindum okkur því í spurningar um fjölskyldu mömmu, hvernig það hafi verið að vera ung móðir, nánast unglingur. „Nú átt þú stóra fjölskyldu. Hvernig er samband þitt og barnanna? Eruð þið miklir vinir? Er erfitt að vera fjarri börnunum eða tekur þú þau með á flakk erlendis þegar þú ert að vinna?“ Ég ber spurningarnar alvarlegur upp en svo skellihlæjum við bæði. Þegar mamma nær andanum aftur tekur hún til við að svara spurningum.

Reykjavík, mars 1984

„Ég var og svo komst þú og við vorum. Við höfum sjálf grínast með að hafa alið hvort annað upp. Að verða móðir ung hefur bæði kosti og galla. Þú varst alveg einstaklega auðvelt barn, alveg þangað til þú náðir táningsaldri. Við brölluðum mikið saman en ég var líka rosalegur glanni og þú fékkst að upplifa ýmislegt sem mér hefur aldrei dottið í hug að leggja á systkini þín. Sindri kemur til okkar átta árum seinna og svo Birta í Svíþjóð rétt fyrir aldamótin, og ég var fertug þegar ég eignast yngsta bróður þinn, hann Loga. Ég ofverndaði hann rosalega. Svo kom Ronald, sonur þinn og fyrsta ömmubarnið, ekki löngu seinna,“ segir mamma.

Fjölskyldan hefur alltaf ferðast mikið, búið úti um allan heim og stundum má líkja fjölskyldulífinu við litla ferðaskrifstofu. „Að sjálfsögðu hefur þetta kallað á skipulagt kaos og skort á rútínu en í staðinn höfum við öðlast víðsýni sem ég álít dýrmæta. Það er búið að vera stórkostlegt ævintýri þetta líf okkar,“ segir mamma.

Hún viðurkennir þó fúslega að þessi lífsstíll hafi ekki alltaf verið auðveldur. Sérstaklega hafi verið sárt að skilja við börnin sín í lengri eða skemmri tíma þegar vinnan kallaði á fjarlægum slóðum. „Sem betur fer lifum við á tækniöld og það er auðvelt að vera í stöðugu sambandi. Ég hefði aldrei getað unnið þessi verkefni án stuðnings og hvatningar frá ykkur krökkunum. Skemmtilegast finnst mér þegar við söfnumst öll saman og krúttum yfir okkur en leiðinlegast þegar við höfum þurft að fara í gegnum alla jakkavasa í von um að finna mjólkurpeninga.“

Ég spyr mömmu hvernig hún skilgreini hamingjuna og hún svarar skáldlega: „Sjáðu til, ég trúi því ekki að það sé til einföld leið að hamingjunni. Ég trúi því að eina leiðin sé að koma á eins miklu jafnvægi og mögulegt er á öll þau mismunandi lög sem mynda líf okkar. Axla ábyrgð, vera helst aldrei vond manneskja, drekka mikið vatn, nota sólarvörn og vona að maður lendi aldrei í stöðu flóttamanns.“

 

Elísabet ásamt Joey, tengdadóttur sinni, dótturinni Birtu og ömmustráknum Ronald.

Hún leggur þó áherslu á að það sé mikilvægt að axla ábyrgð á sínu fólki og sinna því vel. „Mér hefur alltaf verið það mikilvægt að við rífumst ekki, tölum fallega um hvert annað og aðra. Berum virðingu fyrir mismunandi þörfum hvert annars og draumum.  Styðjum hvert annað í öllu sem við viljum taka okkur fyrir hendur. Þrátt fyrir vissa fjarveru síðustu þrjú árin verð ég líka að treysta því að ég hafi verið ykkur börnunum góð fyrirmynd og sýnt ykkur og sannað að allt er mögulegt ef viljinn er fyrir hendi. Já, og svei mér þá, ég tel mig vera í mjög góðu sambandi við börnin mín. En verður þú bara ekki að spyrja sjálfan þig og systkini þín um það? Verður þetta ekki pínu einhliða ef ég fæ bara að rausa óáreitt?“ segir mamma sposk á svip. Hún heldur síðan ótrauð áfram.

 

„Allavega. Það hefur alltaf reynst mér erfiður línudans að ballansera vinnu og heimili. Aðallega af því mér finnst svo gaman í vinnunni. Mér finnst jafn gaman og gefandi að starfa á Íslandi og hérna úti. Það bara gefur betur í aðra höndina hérna megin Atlantshafsins meðan mér var ómögulegt að láta enda ná saman á Íslandi og burðast enn með svartholið sem fylgir mér úr verktakamartröðinni sem okkur er boðið upp á þar.“

Var ekki góður kennari

Ég spyr mömmu hvernig til kom að hún fékk verkefni erlendis. Hrunið átti þar hlut að máli. „Ég man alltaf þegar Guð var beðinn um að blessa Ísland árið 2007 og hvað ég fylltist miklum ótta. Stökk á tilboð um að kenna klippingar hjá LASALLE College of the Arts í Singapúr og þar sem Gísli Snær var skólastjóri The Puttnam Film School. Ég áttaði mig fljótlega á því að ég er ekki góður kennari en eignaðist þar dásamlega vini og lærði svo margt sjálf. Lífið í Singapúr var skemmtilegt og ævintýralegt og krakkarnir nutu tilverunnar. Þaðan fórum við hópurinn til New Orleans þar sem ég tók að mér að klippa Contraband sem Baltasar Kormákur leikstýrði. Það var í tengslum við þá kvikmynd að ég var stödd í Los Angeles og kynntist Dody Dorn sem er frægur kvikmyndaklippari, hún klippti meðal annars Memento. Það tókst með okkur vinskapur, sem styrkist með hverju árinu, og hún kom mér í samband við umboðsmenn sína sem tóku mér fagnandi. Þá fór boltinn að rúlla og fyrsta kvikmyndin sem ég fékk í gegnum þessi nýju tengsl var John Wick.“

Fyrir mömmu er kvikmyndagerð samræður og samvinna, hinir raunverulegu foreldrar kvikmyndaverks. „Allir sem koma að gerð kvikmyndar taka þátt í samræðunni og sem klippari reyni ég að vinna náið með sem flestum deildum svo öruggt sé að við náum því besta fram í klippinu, til að uppfylla eins vel og mögulegt er sýn leikstjórans. Uppáhaldskvikmyndin mín er alltaf sú sem ég er að klippa þá stundina. Sumar kvikmyndir hafa orðið vörður á ferli mínum en þær skipta mig allar jafn miklu máli. Það er enginn munur á því hvernig ég nálgast klippið á íslenskum eða erlendum kvikmyndum, en að því sögðu eru samt ný „element“ sem koma inn þegar um jafn stóra kvikmynd og til dæmis Deadpool er að ræða. Þegar áætlaður kostnaður við gerð kvikmyndar er kominn yfir 100 milljónir dollara er eftirlit með öllu framleiðsluferlinu miklu strangara og kvikmyndaverin og framleiðendur hafa meira vægi en gengur og gerist. Flóknasta vinnan við Deadpool var að ná jafnvægi á milli kómedíunnar og dramans og svo auðvitað að í myndinni eru tvær teiknaðar persónur sem þarf að vinna frá grunni og mörg þúsund skot sem þörfnuðust tölvuvinnslu. Því verður ekki neitað að nokkurra ára þjálfun í Latabæ og klipping á einu stykki teiknimynd eins og Hetjur Valhallar, komu sér þar vel.“

Ég kinka kolli áhugasamur. „Næsta spurning, hvernig lyktar Ryan Reynolds?“ Mamma hvessir á mig augunum. „Æ, Máni hættu þessu“

Stolt af verkum sínum

Þrátt fyrir erfið veikindi tókst Elísabetu að koma ýmsu í verk. „Ég er mjög stolt að þrátt fyrir veikindin komu út þrjár kvikmyndir í ár sem ég tók þátt í að klippa: Svanurinn, Vargur og Deadpool 2. En ekki spyrja mig hvernig það sé að vera kona í kvikmyndagerð. Ég barasta hef engan samanburð til að meta það, ég hef alltaf verið kona. En þú ert nýbúinn að spyrja mig hvernig þetta gangi með öll þessi börn þannig að það hlýtur eiginlega að teljast merkilegra að vera kvenkyns klippari með börn en karlkyns klippari með börn. Það varpar að sjálfsögðu vissu ljósi á það hvað kröfur á kynin geta verið mismunandi og dómarnir líka.

Ég er gallharður femínisti, ekki bara af því að ég er kona og móðir Birtu heldur ekki síst af því að ég er móðir ykkar bræðranna þriggja og amma hans Ronna. Það er okkur öllum í hag að jafnrétti sé virt og engum sé troðið í kassa sem ekki passar.“

Hress fjölskylda.

Ég spyr mömmu hvort að hún vildi sjá kynjakvóta í kvikmyndagerð. Hún svarar ákveðin: „Við skulum ekkert vera að skafa utan af því að það er ríkjandi kynjakvóti í kvikmyndagerð. Ég tel nauðsynlegt að breyta því með handafli til að koma konum að í þessari mikilvægu sagnagerð og söguskráningu. Við eigum það skilið, bæði sem kvikmyndagerðarmenn og sem áhorfendur, hvaða kyn sem við erum.“

 

Framtíðin er óráðin en hvíld er mömmu efst í huga. „Nú ætla ég bara að taka því rólega og skoða vel hver verða næstu skref. Ég vil helst vinna við meðalstórar kvikmyndir þar sem listrænt frelsi er meira en ef um „blokkböster“ er að ræða og ég vil gjarna vinna eins nálægt heimahögum og hægt er, til dæmis London. En tökum þetta eitt skref í einu og fyrst ætla ég að koma mér aftur í almennilegt form.“

Við sitjum enn í sólinni. Kaffibollarnir löngu tómir. Einhvern veginn tókst okkur að komast í gegnum spurningarnar frá DV og setja okkur í spor blaðamanns og viðmælanda þrátt fyrir náin tengslin.

„Heyrðu mamma, ég held að við séum komin með nógu mörg orð. Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?“ segi ég.

„Bara, reyndu að láta mig hljóma pínu gáfulega og viltu gjöra svo vel að tryggja að þessar myndir af mér verði „fótosjoppaðar“,“ svarar hún.

„Engar áhyggjur mamma, bara „plís“, ekki lesa kommentakerfið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“