fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Magni braust inn um miðja nótt: Barði ólétta konu með öskubakka og reyndi að binda hana

Ritstjórn DV
Föstudaginn 6. apríl 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valbjörn Magni Björnsson, eða Magni Línberg, játaði að hafa brotist inn til ófrískrar konu um miðja nótt, ráðist á hana og reynt að binda hana með snæri sem hann hafði meðferðis. Þá gekk hann einnig í skrokk á konunni og barði hana með öskubakka. Fyrir þetta fékk Magni tveggja mánaða skilorðsbundin dóm. Hann sat sem sagt ekki einn dag í fangelsi fyrir árás sem skipulögð var í þaula. Samkvæmt heimildum DV hafði hann verið með konuna á heilanum. Maður konunnar var á næturvakt þegar árásin átti sér stað. Þetta var í febrúar árið 1978 í Neskaupstað. Eltihrellirinn Magni gengur nú laus á Akureyri og herjar þar á fyrrverandi sambýliskonu sína til skamms tíma, Svanhildi Sigurgeirsdóttur, sem ekki fær nálgunarbann. Magni hefur í 40 ár fengið að eyðileggja líf kvenna. Magni hefur herjað á Svanhildi frá því að hún flúði eigið heimili. Fyrir utan að sitja um Svanhildi, elta hana í búðum, hringja látlaust í hana hefur hann tekið blóm af leiði föður hennar og komið fyrir á bíl í hennar eigu. Eftir umfjöllun DV segir hann að stríðið sé rétt að byrja.

Mynd af rósunum sem Svanhildur og systir hennar lögðu á leiði föður þeirra á afmælisdegi hans. Magna þótti viðeigandi að taka þær og leggja á húddið á bíl Svanhildar til að hrella hana.

Íþróttastjarna og gluggagægir

DV hefur heimildir fyrir því að Magni hafi strax sem ungur maður byrjað að hrella konur og hefur hann komist upp með slíkt í um 40 ár. Á flestum þeim stöðum sem hann hefur stungið niður fæti er að finna sögur af þessum eltihrelli sem eins og áður segir gengur laus. Sögurnar eru endalausar og hefur Magni nánast undantekningarlaust komist upp með að eyðileggja líf kvenna.

DV hefur undir höndum dóm frá árinu 1979. Um afar alvarlegt og hrottalegt brot er að ræða og rétt að vara við lýsingum sem hér fara á eftir. Magni var íþróttastjarna í bænum og tvítugur þegar þetta gerðist. Margar konur höfðu greint frá því að Magni væri að gægjast á glugga hjá þeim en engin þeirra þorði að leggja fram kæru. Ofbeldi Magna í garð kvenna hófst því strax á unga aldri. Um einbeittan brotavilja var að ræða þegar Magni gekk lengra en áður og ótrúlegt að hann hafi ekki þurft að sitja í fangelsi fyrir að rústa lífi óléttrar konu. Magni átti eftir að játa brot sín.

Með band í vasanum

Magni læddist að húsinu að nóttu til með skrúfjárn og band í vasanum. Bandið ætlaði hann sér að nota til að binda konuna. Áður hafði hann skrúfað lausa peru í útiljóskeri fyrir utan dyrnar. Klukkan var um tvö um nóttina þegar Magni braust inn í húsið. Konan vaknaði við hljóð en vissi ekki að Magni biði hennar í myrkrinu. Hún var ein heima. Maðurinn hennar var á næturvakt. Þau áttu von á barni. Hún fór fram úr á náttkjólnum og varð þá þess vör að hurð á milli innri og ytri gangs hristist. Fór hún niður til þess að loka dyrunum. Þegar hún opnaði dyrnar til að loka þeim betur stökk Magni á hana. Konan hrópaði upp yfir sig skelfingu lostin. Magni greip harkalega fyrir munn hennar og fékk konan þá blóðnasir sem hún taldi stafa vegna hræðslu. Hann hafði lengi haft augastað á henni og hann var kominn til að binda þessa konu. Hún átti að vera hans! Hann skyldi fá hana. Magni ýtti óléttri konunni inn ganginn, hrinti henni á gólfið og settist klofvega ofan á hana þar sem hún lá á bakinu.

Konan greip öskubakka úr gleri til að reyna að verja sig en Magni hrifsaði hann af henni og barði hana þrisvar í hausinn. Konan fékk mar og stóra kúlu við hægra eyra.

Magni hafði barið hana þrisvar og sat enn ofan á henni. Nú tók hann upp bandið sem hann hafði haft meðferðis og reyndi að binda konuna. Konan barðist um á hæl og hnakka og tókst að verjast því.

„Þú getur fengið alla þá peninga sem eru í húsinu ef það er það sem þú vilt,“

sagði konan í geðshræringu.

Magni hristi höfuðið.

„Hvað viltu þá?“ hrópaði konan.

Magni potaði ofan til í kvið hennar. Konan skildi það á þann hátt að það væri hún sem hann vildi en Magni mælti ekki orð af vörum á meðan árásin stóð yfir. Árásinni var þó hvergi nærri lokið þarna. Í dómnum er tekið sérstaklega fram að Magni hafi ekki reynt að taka hana úr kjólnum eða fækka fötum sjálfur. Konan taldi hins vegar að Magni hefði brotist inn til hennar til að nauðga henni. Konan vissi hins vegar ekki á þessum tímapunkti að maðurinn var hinn tvítugi Valbjörn Magni Björnsson sem hafði stundað að gægjast á glugga kvenna.

Magni er með tvær Facebook-síður. Á annarri þeirra er hann með sem einkennismynd mynd af honum ásamt fyrrverandi sambýliskonu sinni. Þannig heldur hann áfram að hrella hana. Einnig birtir hann mynd af úlfi og tígrisdýri en þeir sem þekkja til Magna líta á það sem hótun en vinsælt er að tákna siðblindu með þessum fallegu dýrum.

Sá að þetta var Magni

Konan baðst nú vægðar og sagði að hún væri ólétt. Sagðist hún þurfa vatn þar sem blóð rann úr nefi hennar ofan í kok hennar. Magni leyfði henni að standa upp og fór hún fram í eldhús og fékk sér vatn að drekka. Myrkur var á neðri hæðinni en ljós í ganginum. Í skímunni sá hún hver maðurinn var. Þetta var Valbjörn Magni. Hún gat ekki flúið eða reynt að hringja. Magni var búinn að skera á símalínuna. Konan kom aftur inn í stofu og settist þar. Valbjörn var nú með klút fyrir andlitinu og með hettu á höfði sem náði langt fram fyrir andlitið. Hann var í mittisúlpu og í stígvélum.

„Ef þú ferð út núna mun ég engum segja frá því sem gerðist,“ sagði konan biðjandi. Magni tvísteig um nokkra stund í stofunni. Hann vissi ekki hvað hann ætti til bragðs að taka. Að lokum tók hann þá ákvörðun að fara og treysta því að konan myndi ekki segja til hans.

Óttaðist um barnið

Konan sat ein eftir í stofunni. Hún þorði ekki að hreyfa sig strax. Tíminn stóð í stað. Sekúndur urðu að eilífð. Loks stóð hún á fætur og gægðist fram. Magni var farinn. Árásin hafði staðið í um klukkustund. Eiginmaður hennar kom af vakt um klukkan fjögur og hringdu þau strax í lögreglu.

Konan var aum og marin eftir árásina og bólgin í andliti. Hún hafði þó mestar áhyggjur af því hvort eitthvað hefði komið fyrir ófætt barn þeirra hjóna. Konan var í áfalli eftir árásina og með áfallastreituröskun. Hún þorði hvergi að vera ein og var alltaf hrædd.

Barnið kom síðan í heiminn og sagði konan að það væri órólegt á taugum ef eitthvað væri að og rakti hún það til árásarinnar.

Valbjörn Magni Björnsson eða Magni Línberg eins og hann kýs að kalla sig í dag flutti í götuna hjá konunni sem hafði kært hann fyrir ofsóknir á Akureyri. Þar gengur hann laus í dag.

Játaði allt

Magni var yfirheyrður og var tregur til að tjá sig. Hann játaði að lokum árásina en þvertók fyrir að hafa barið konuna með öskubakka og sagði öskubakkann hafa fallið á andlit konunnar þegar hann var að reyna verjast. Fingraför hans fundust á ljóskerinu þar sem hann hafði fyrir innbrotið skrúfað peruna lausa.

„Ég gekk í kringum húsið til öryggis,“ sagði Magni í yfirheyrslu en bætti við að hann hafi ekki gert sér grein fyrir að fullu hvað hann ætlaði að gera þegar inn var komið. Engu að síður var hann með band meðferðis.

Magni sagði að hann hefði hulið andlit sitt með því að binda viskustykki fyrir andlit sitt. Magni gekkst undir geðrannsókn og var metinn sakhæfur. Helgina eftir árásina lét hann eins og ekkert hefði í skorist og lýsti því yfir við alla sem vildu heyra að hann væri saklaus og verið væri að ljúga upp á hann. Hann var íþróttahetja í bænum og tilfinning annarra sem bjuggu á svæðinu var að þagga ætti málið niður af yfirvöldum.

Íþróttahetja fær dóm

En svo kom að því að kveða upp dóm. Magni hafi játað meira og minna allt sem hann var sakaður um. Þorsteinn Skúlason bæjarfógeti kvað upp dóm. Fyrir skelfilega árás þótti hæfilegt að dæma hina ungu íþróttahetju í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi til þriggja ára, en refsiramminn var þrjú ár á þessum árum. Ekki einn dag sat Magni inni fyrir að rústa lífi þessarar konu. Margir í bænum upplifðu aðkomu yfirvalda sem þöggun. Og svo flutti Magni úr bænum. Og í næsta bæ fann hann annað fórnarlamb og svo annað og svo annað.

Fær ekki nálgunarbann

Sögurnar eru endalausar. Heimildarmenn á hverju strái sem telja Magna hættulegan. Þær sögur verða ekki raktar hér. En í dag hefur hann unnið markvisst að því að eyðileggja líf Svanhildar Sigurgeirsdóttur. Rétt eins og yfirvöld brugðust hinni ungu móður í Neskaupstað hefur Svanhildur ekki fengið þá aðstoð sem hún þarf á að halda. Hún fær ekki einu sinni nálgunarbann á mann sem hefur barið ófríska konu með öskubakka og reynt að binda hana með snæri.

Skelfilegar ofsóknir

DV fjallaði ítarlega um Magna í síðasta helgarblaði og ræddi við Svanhildi Sigurgeirsdóttur, fyrrverandi sambýliskonu Magna til skamms tíma. Eftir að hún sleit sambandinu hefur hún mátt þola skelfilegar ofsóknir, sem hafa verið allt frá því að Magni hafi hringt stöðugt í hana, setið um hús hennar, elt hana í búðum, áreitt fjölskyldu hennar, vini og kunningja og lagt fyrir utan hús hennar á hátíðisdögum, líkt og um jól og áramót.

„Magni tók blóm af leiði föður míns og setti á húddið á bílnum mínum. Síðan hringdi hann í mig og tilkynnti mér að hann væri með skilaboð frá föður mínum sem var látinn. Hann lést áður en ég kynntist Magna. Hann segist geta haft samband við framliðna og sagðist vera með skilaboð frá pabba um hvað mér væri fyrir bestu,“ sagði Svanhildur við DV. Hún hefur óskað eftir nálgunarbanni gegn honum en því hefur verið hafnað.

Þá voru rifjaðar upp sögur fleiri kvenna sem Magni hefur eltihrellt. Fanney Björk Ingólfsdóttir, sem er frá Skagaströnd, var 26 ára þegar hún árið 2016 lýsti reynslu sinni af Magna. Sagði hún Magna hafa svipt hana geðheilsunni. Þá var sagt frá annarri konu, Hrefnu Jónsdóttur, sem sagði í samtali við DV að Magni hefði kúgað hana til þess að stunda kynlíf með honum gegn því að kynlífsmyndband sem hann tók upp af henni í leyfisleysi færi ekki í birtingu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi