Ráðherra kemur stúlkunum ekki til hjálpar, Sema: „Grimmd, ómannúð og skilningsleysi”

Önnur stúlknanna sem send verður úr landi
Haniye Maleki Önnur stúlknanna sem send verður úr landi

Sigríður A. Andersen, dómsmálaráðherra, mun ekki endurskoða ákvörðun Útlendingastofnunar um að senda tvær ungar stúlkur og fjölskyldur þeirra úr landi á grundvelli Dyflinarreglunnar. Mary, 8 ára frá Nígeríu, og Haniye Maleki, 11 ára og ríkisfangslaus, munu því bætast í hóp þeirra 36 barna sem hafa verið vísað úr landi á þessu ári.

Tekur ekki fram fyrir hendurnar á stjórnsýslunni

Sigríður segir í samtali við RÚV: „Það kemur ekki til greina af minni hálfu sem ráðherra að taka fram fyrir hendurnar á sjálfstæðri stjórnsýslustofnun eins og kærunefnd í málum sem hafa fengið tvöfalda málsmeðferð hér á landi”.

Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur á Íslandi, stóðu fyrir fjölmennum mótmælum gegn brottvísun stúlknanna og fjölskyldna þeirra á Austurvelli í dag. Um 15.000 manns tóku þátt, þar á meðal bæði Mary og Haniye og fjölskyldur þeirra.

Hroki og grimmd

Sema Erla Serdar, einn af forsvarsmönnum Solaris, harmar það að mótmælin hafi ekki skilað tilætluðum árangri og náð til ráðherrans. Hún segir:

„Íslensk yfirvöld hafa sýnt fátt annað en grimmd, ómannúð og skilningsleysi á stöðu flóttabarna, sem endurspeglast sérstaklega vel í þeirri ákvörðun að vísa á brott hinni ellefu ára gömlu Haniye og átta ára gömlu Mary og fjölskyldum þeirra og senda þær þar með aftur á flótta. Tvær af þeim milljón barna sem enn eru á flótta“.
Hún segir að viðbrögð ráðherrans einkennist af hroka og grimmd. Jafn framt vonast hún eftir að málinu sé ekki lokið.

„Við biðlum nú til allra þeirra sem geta haft áhrif að beita sér hið allra fyrsta fyrir því að koma í veg fyrir að stúlkurnar verði sendar á nýjan leik út í óvissuna og óttann. Sem mun gerast á næstu dögum. Ekki gera okkur samsek í þessu ofbeldi”.

Pistil Semu má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.