Fréttir

Hörmungar afhjúpaðar: Munaðarlaus börn vannærð og mjög illa haldin

Hneykslismál í Hvíta-Rússlandi – Unglingar lítið þyngri en 2-4 ára börn

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Fimmtudaginn 20. apríl 2017 10:20

Breska blaðið Guardian hefur svipt hulunni af hörmulegu ástandi á munaðarleysingjaheimilum í Hvíta-Rússlandi. Vitað er um að minnsta kosti hundrað börn sem eru svo illa haldin að þau eru á barmi þess að verða hungurmorða.

Lítið þyngri en ungbörn

Í umfjöllun Guardian kemur fram að reiði ríki í Hvíta-Rússlandi vegna málsins og hefur sakamálarannsókn verið hrint af stað.
Í samtölum við saksóknara, lækna og forsvarsmenn barnaheimila í landinu kemur fram að þetta ástand sé ekki nýtt af nálinni og hafi raunar verið við lýði í mörg ár. Dæmi eru um unglinga sem voru lítið þyngri en 2-4 ára börn, 15 kíló.

Líta málið alvarlegum augum

Guardian birti meðal annars myndir frá munaðarleysingjaheimilum í höfuðborginni Minsk, en tekið er fram í umfjölluninni að sumar af myndunum séu svo hörmulegar að ekki er talið rétt að birta þær. Þykir staða mála í Hvíta-Rússlandi minna um margt á sambærilegt hneykslismál sem kom upp í Rúmeníu á tíunda áratug liðinnar aldar.

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi eru sögð líta málið alvarlegum augum og fer nú rannsókn fram á því hvernig á því stendur að fleiri tugir barna séu svo illa haldnir. Nú þegar hafa forsvarsmenn einhverra af þeim munaðarleysingjaheimilum sem um ræðir verið reknir.

Andlegri heilsu um að kenna

Í umfjöllun Guardian kemur fram að málið hafi komið upp eftir að læknir á einu heimilinu bauð blaðamönnum til að fjalla um góðgerðarleik í knattspyrnu sem haldinn var til að safna peningum. Peningana átti að nota í að kaupa sérstakan mat sem er ríkur af hitaeiningum og næringarefnum fyrir börnin á heimilinu.

Myndirnar frá munaðarleysingjaheimilinu birtust í kjölfarið í fjölmiðlum í Hvíta-Rússlandi. Vefritið Imena birti til dæmis mynd af stúlku sem sögð var tvítug og vega einungis tæp 12 kíló.
Forsvarsmenn þeirra heimila sem um ræðir segja að andlegri heilsu barnanna sé um að kenna, ekki sé hægt að segja að næringu sé vísvitandi haldið frá börnunum.

Vekur reiði margra

Afhjúpunin hefur sem fyrr segir vakið reiði margra og hafa margir spurt hvernig á því standi að ekki sé hægt að gefa veikum börnum að borða í Evrópulandi á tuttugustu og fyrstu öldinni. Enginn virðist hafa svar á reiðum höndum. Forsvarsmenn heimilanna segja að mörg barnanna haldi engum mat niðri, sum séu mjög fötluð og að peningar séu af skornum skammti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af