fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

„Ég myndi frekar sprengja upp búslóðina, en að dreifa þessum kvikindum!“

Rottumítlar hafa leikið Ingu Rós og fjölskyldu hennar mjög grátt

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 2. apríl 2017 20:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fram kom í helgarblaði DV á föstudaginn að rottumítlar hefðu hertekið heimili Ingu Rósar Sigurðardóttur og kærasta hennar, Sæmundar Heiðars Emilssonar, fyrir rúmri viku. Þau hafa verið á hrakhólum síðan, húsnæðislaus, fárveik og viðskila við allar sínar persónulegu eigur.

Greint var frá málinu í frétt sem birtist á DV.is í gærkvöld.

Áhyggjufull yfir heilsunni

Þau vissi ekki í fyrstu hvers kyns plága það væri sem ylli útbrotunum. En í síðustu viku var sent sýni af eldhúsvegg íbúðarinnar til greiningar hjá Náttúrufræðistofnun og staðfesti Erling Ólafsson, skordýrafræðingur, að um rottumítil hefði verið að ræða.

Um leið og það var ljóst fóru Inga Rós og Sæmundur til landlæknis, sem ráðlagði þeim að hafa samband við heilsugæslu. Parið fór í framhaldi af því beint á bráðamóttöku, óttaslegið yfir heilsu sinni. Þar tók hjúkrunarfræðingur á móti þeim sem virðist lítið hafa gefið fyrir áhyggjur parsins. „Hjúkkan á bráðamóttökunni vísaði okkur bara burt, hún trúði því greinilega ekki að þetta væri neitt sérstakt,“ segir Inga Rós í samtali við blaðamann DV.

Hundsuð af lögreglunni

Inga Rós lýsir yfir djúpum áhyggjum í færslu sem hún birti á Facebook í hádeginu í dag, sunnudag. Eftir að henni og Sæmundi var vísað burt af bráðamóttökunni höfðu þau strax samband við lögreglu. „Ég fékk bara neitun, lögreglan sagðist ekkert geta gert í málinu,“ segir hún og bætir við að hún sé gjörsamlega ráðþrota.

Fengu hótanir frá eigenda hússins

Parið leigði íbúð sína í kjallaranum á húsi við Laugarveg, í miðbæ Reykjavíkur. Það eru þrír aðrir leigjendur í húsinu, og svo er einn sem leigir í skúr á lóðinni. Eigandinn býr sjálfur á efri hæð hússins.

Inga Rós segir að honum standi alveg á sama um hrakföll sín og fjölskyldu sinnar. Að því er fram kemur í Facebook-færslu Ingu, skipti eigandinn um lás á íbúð þeirra í gær, laugardag. „Hann hótaði að henda allri búslóðinni okkar út, ef við borguðum ekki leiguna,“ sagði Inga Rós við blaðamann DV.

Eigandi íbúðarinnar virðist krefjast þess að leiga sé borguð af íbúðinni, þrátt fyrir að hún sé óíbúðarhæf. Í skýrslu um ástand íbúðarinnar sem gerð var á vegum meindýravarna Reykjavíkurborgar, kom fram að mikið magn rottumítla hefði fundist þar á veggjum.

„Við sýndum eigandanum skýrsluna, en honum var alveg sama. Hann ætlar ekki að láta eitra eða neitt svoleiðis. Hann vill að við borgum fyrir meindýraeyði og pípara, hann vill að við borgum allt,“ útskýrir Inga Rós.

Rottumítlarinir eru ekki nema 1 mm að stærð og því er ógerningur að vita hvar þeir leynast og hvort einhverjir hafi orðið eftir ef búið er að eitra. Íbúðin er sama sem ónýt, því mítlarnir eru inni í veggjum og lagnakerfum. Það þarf að láta mynda lagnir í öllu húsinu, til að skera úr um hvort pöddurnar sé að finna í öðrum hlutum þess.

Inga veit lítið um ástand hinna íbúðanna sem leigðar eru út í húsinu, hvort það örli á rottumítlunum þar. En hún segir konuna, sem leigir í skúrnum á lóð hússins, hafa verið veika og orkulausa upp á síðkastið – sem gæti bent til þess að skordýrin séu búin að hreiðra um sig hjá henni líka.

Læsir sig af

Inga og Sæmundur eru margbúin að reyna að semja við eigandann, sem er að þeirra sögn mjög ósamvinnuþýður. „Hann er búinn að draga fyrir alla glugga og svo leggur hann fína bílnum sínum langt í burtu, til að láta líta út fyrir að hann sé ekki heima“, segir Inga Rós. Hún bætir því við að hún sé komin með lögfræðing í málið.

Óttast að mítlarnir berist til næstu húsa

Inga Rós útskýrir í færslu sinni á Facebook að Reykjavíkurborg eigi bæði blokkina fyrir neðan fyrrum heimili sitt og lóðina við hliðina á, og því eigi borgin hagsmuna að gæta þegar kemur að því að útrýma þessum óþrifnaði. Þá er einnig gistiheimili örskammt frá húsinu. Rottumítlar una sér best við raka og 25 stiga hita – kjallaraíbúðir í gömlum húsum eru því kjöraðstæður fyrir þá.

Mikil óvissa

Inga er í mikilli óvissu vegna málsins, en óttast það mest að aðrir lendi eins illa í því og hún og Sæmundur. Öll búslóð og persónulegir munir þeirra eru inni í íbúðinni – það þarf líklegast að láta eyða þeim öllum. Inga segir veraldlegu hlutina skipta minna máli, aðalatriðið sé að stofna öðrum ekki í hættu.

Bit rottumítla valda töluverðum líkamlegum óþægindum – svo ekki sé minnst á að meindýrin hertaka mannabústaði, með tilheyrandi andlegum óþægindum. Meðal einkenna í kjölfar bita rottumítla er hár hiti, orkuleysi og kláði.

„Þetta getur ekki verið svona flókið. Það þarf bara að stoppa þetta – ég myndi frekar sprengja upp búslóðina, en að dreifa þessum kvikindum,“ sagði Inga Rós í samtali við blaðamann DV í dag, sunnudag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi