fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Telja frumvarp Birgittu ekki standast stjórnarskrá

Fyrrverandi forsetar Alþingis engu að síður jákvæðir varðandi breytingar á þingsköpum

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 7. mars 2017 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrverandi forsetar Alþingis telja að frumvarp sem Birgitta Jónsdóttir er fyrsti flutningsmaður að, og gengur út á að þingmál falli ekki niður milli löggjafarþinga, standist ekki stjórnarskrá. Þeir eru engu að síður áhugasamir um að málið nái fram að ganga þar eð þeir telja það myndi bæta vinnulag á Alþingi. Í greinargerð með frumvarpinu er því hins vegar haldið fram að ekki sé þörf á stjórnarskrárbreytingu.

Mynd: Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Frumvarpið sem um ræðir lýtur að því að hafi þingmál ekki hlotið lokaafgreiðslu við lok hvers löggjafarþings skuli taka það upp að nýju á næsta þingi nema flutningsmaður þess hafi dregið það til baka. Í dag er staðan sú að þingmál falla dauð hafi ekki tekist að klára þau við þinglok og þarf þá að endurflytja þau á næsta löggjafarþingi. Það á meðal annars við um umrætt frumvarp en Birgitta lagði það áður fram árið 2015. Ákvæði er um það í frumvarpinu að mál skuli falla niður við lok kjörtímabils.

Enginn viljað taka áhættuna

Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis á síðasta kjörtímabili, er jákvæður í garð hugsanlegra breytinga í þessa veru. „Ég held að ýmislegt mæli með því að þetta fyrirkomulag yrði tekið upp í þinginu. Það sem hefur hins vegar gert það að verkum að menn hafa ekki hrint þessu í framkvæmd er að í besta falli ríkir um það óvissa hvort það standist stjórnarskrá, það er að segja hvort það sé ekki skylt samkvæmt stjórnarskránni að klára skuli mál á því löggjafarþingi sem það er lagt fram á. Í ljósi þess hefur enginn viljað taka áhættu á að breyta lögum, ef í ljós kæmi síðar að það væri ekki í samræmi við stjórnarskrá. Það gæti haft miklar afleiðingar í för með sér.“

Mynd: Kristinn Magnússon

Einar bendir á að við vinnu við breytingar á stjórnarskrá á síðasta kjörtímabili, sem ekki náðu fram að ganga, hafi hann látið fara fram vinnu í þinginu sem snerti á þessu máli. Sú vinna gekk út á að útfæra breytingar af þessu tagi sem yrðu hluti af stjórnarskrárbreytingum. „Niðurstaðan varð sú að ekki náðist samstaða um að breyta stjórnarskránni og því reyndi ekki á þetta.“

Myndi auka skilvirkni

Einar telur að ef af yrði þá myndi þessi breyting á vinnulagi Alþingis draga úr tvíverknaði og auka skilvirkni í þingstörfum. Spurður hvort hann telji að með breytingunni myndi staða framkvæmdavaldsins gagnvart þinginu eða staða stjórnar gagnvart stjórnarandstöðu breytast með einhverjum hætti segir Einar að hann telji að það verði ekki, í það minnsta ekki í grundvallaratriðum. „Þetta gæti gert það að verkum að það yrði erfiðara fyrir stjórnarmeirihluta að svæfa mál í nefndum. Eftir sem áður væri það auðvitað á valdi pólitísks meirihluta í þinginu að koma málum áfram og samþykkja þau. Þetta myndi hins vegar mögulega líka greiða fyrir málum ríkisstjórnarinnar. Mál sem hefðu til dæmis farið í gegnum aðra umræðu en hefðu strandað í nefnd milli annarrar og þriðju umræðu myndu þá ekki falla niður milli löggjafarþinga.“

Þyrfti skýran ramma

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sat sem forseti þingsins frá síðustu kosningum og fram til þess að Unnur Brá Konráðsdóttir tók við í janúar síðastliðnum. Steingrímur er áhugasamur um að þessi breyting nái fram að ganga. „Ég tel að stefna ætti að því að endurskoða skipulagið þannig að þingmál gætu lifað, með tilteknum hætti þó. Það þyrfti að búa um það með hvaða hætti ætti að fara með þingmál sem hefði lifað milli þinga. Ég held það þyrfti að búa til skýran ramma um með hvaða hætti eigi að klára mál. Sú fastanefnd sem hefði mál til meðferðar þyrfti að afgreiða einhvers konar skilagrein með því þar sem ákveðið væri með hvaða hætti ætti að ganga frá málinu, það er ekki hægt að hlaða upp óafgreiddum þingmálum.“

Hægt að breyta stjórnarskránni

En það er hængur á. „Ég hallast að því að þetta sé ekki hægt nema með breytingu á stjórnarskrá. Það hefur verið afstaða helstu stjórnarskrárfræðinga að þetta sé ekki öðruvísi hægt miðað við orðanna hljóðan í stjórnarskrá, að flytja skuli hvert mál á löggjafarþingi. Auk þess er um órofa hefð að ræða, svona hefur stjórnarskráin verið túlkuð alla tíð,“ segir Steingrímur en bætir við að engu að síður sjái hann ekkert sem standi í vegi fyrir því að menn nái pólitískri sátt um málið og fylgi því eftir með breytingu á stjórnarskrá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi