fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Fékk taugaáfall og var þjakaður af kvíða eftir ólöglega handtöku: Fær 250 þúsund krónur frá ríkinu

Auður Ösp
Fimmtudaginn 9. febrúar 2017 16:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða karlmanni 250 þúsund krónur í miskabætur vegna ólögmætrar og óþarflega harkalegrar handtöku. Fram kemur í dómi að handtaka mannsins og flutningur á lögreglustöð hafi verið óþörf. Maðurinn hlaut margvíslega líkamlega áverka við handtökuna og þá staðfesti læknir að hann hefði orðið fyrir taugaáfalli. Auk þess glímdi maðurinn við kvíða og depurð í kjölfar atviksins. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur nú á dögunum.

Forsaga málsins er sú að í apríl 2015 lagði maðurinn bifreið sinni í Borgartúni en lögreglubíll hafði þá veitt honum eftirför. Tveir lögreglumenn höfðu afskipti af manninum og tjáðu honum að það vantaði skráningarmerki aftan á bifreið hans og að stöðuljós logaði ekki. Sagði maðurinn að viðmót lögreglumannanna hefði breyst eftir að hann neitaði að setjast inn í lögreglubíl, og annar lögreglumaðurinn hefði þá byrjað að skafa skoðunarmiðann af bifreið hans.

Sagðist hann hafa spurt lögreglumanninn tvívegis hvað hann væri að gera, en sá hefði engu svarað. Hafi hann þá komið laust við öxlina á honum og endurtekið spurninguna. Þá hefði lögreglumaðurinn stokkið á fætur og rekið andlitið framan í hann, og síðan spurt hvort hann „vissi ekki að það mætti ekki snerta lögreglumenn“ og ýtt honum frá.

Maðurinn var handtekinn í kjölfarið. Fyrir dómi sagði hann lögreglumennina hafa ýtt honum upp að glugga og síðan skellt honum á stéttina og báðir sett hné í bakið á honum. Þeir hefðu síðan handjárnað hann, sett hann í þröngt aftursæti og ekið niður á lögreglustöð. Lýsti maðurinn því svo að hann hefði verið leiddur þar inn í yfirheyrsluherbergi og varðstjóri rætt við sig en sá hefði eingöngu spurt hvort honum væri illa við lögregluna. Honum var síðan sleppt úr haldi.

Sagði maðurinn að hann hefði engann mótþróa sýnt og að hann hefði ekki talið að sér væri skylt að fara upp í lögreglubílinn. Þá sagðist hann hafa tjáð lögreglumönnunum þennan dag að hann væri haldinn liðagigt og gæti því ekki sett hendur fyrir aftan bak.

Fyrir dómi sagði annar lögreglumannanna að maðurinn hefði ekki hlýtt ítrekuðum fyrirmælum þennan dag heldur sýnt mótþróa við handtöku og barist mikið á móti. Sama kemur fram í frumskýrslu.Sagði löreglumaðurinn að þeir hefðu orðið að setja manninn niður á stéttina þar sem þeir settu á hann handjárn.

Hinn lögreglumaðurinn sagði manninn hafa komið að sér og byrjað að pikka í sig, þó svo að hann hefði sagt manninum að snerta sig ekki.

Fram kemur í læknisvottorðum sem lögð voru fram fyrir dómi að maðurinn hefði hlotið yfirborðsáverka á höfði, bakvegg brjóstkassa og á mörgum svæðum á efri og neðri útlimum. Þá kom fram að maðurinn hefði leitað á heilsugæslu vegna kvíða, spennu og erfiðleika með svefn og sagði læknir að svo virtist sem maðurinn hefði orðið fyrir taugaáfalli í samskiptum við lögregluna. Var honum ávísað kvíðadempandi lyfjum.

Eiginkona mannsins sagði hann jafnframt hafa verið niðurdreginn fyrstu vikuna eftir handtökuna. Sagði hún eiginmann sinn hafa verið kvíðinn, framtakslaus og sofið illa og sagði hún að sér hefði dottið í hug að panta tíma hjá geðlækni fyrir hann.

Við meðferð málsins var litið til upptöku úr öryggismyndavél sem sýndi atburðarásina þennan dag. „Sjá má að stefnandi var ósáttur við aðgerðir lögreglumannanna og að hann lét sér ekki segjast þegar honum var ýtt frá. Hélt hann uppteknum hætti og vildi komast að lögreglumanninum sem var að eiga við númerið á bifreið hans,“ segir í dómnum en talið var ljóst að þrátt fyrir framgöngu mannsins hefði handtaka hans verið óþörf, enda hafi lögreglumennirnir haft í fullu tré við hann. Þeir hefðu því hæglega getað lokið aðgerðum sínum án þess að handjárna manninn. Þá taldi dómurinn að flutningur mannsins á lögreglustöð hefði verið óþarfur, enda ekki tekin skýrsla af manninum þegar þangað var komið að því er virðist nema til málamynda.

Sem fyrr segir hefur ríkið verið dæmt til að greiða manninum 250 þúsund krónur í miskabætur en kröfu mannsins um um bætur fyrir skemmdir á fatnaði og skóm var hins vegar vísað frá dómi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi