fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

18 frábærar fréttir árið 2016

Risapöndur og aðrar viðkvæmar dýrategundir ekki lengur í útrýmingarhættu – Framfarir á sviði heilbrigðisvísinda – Jákvæðir hlutir gerast enn

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 12. febrúar 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á þessum tíma ársins er gjarnan farið yfir farinn veg. Nýliðið ár er gert upp og farið er yfir það helsta sem gerðist í heiminum. Yfirleitt eru það hörmungar, ýmist af völdum manna eða náttúru, sem eru fyrirferðarmestar. En þótt manni virðist stundum sem heimurinn stefni hraðbyri í slæma átt eru líka jákvæðir hlutir í gangi – fréttir sem kannski fer minna fyrir. Hér eru nokkrar jákvæðar fréttir sem sjálfsagt hafa farið framhjá einhverjum.

Mynd: EPA

1.) Kveðjum plastið
Talið er að ein trilljón, eða milljón billjónir af plastögnum fljóti um í sjónum. Vonir standa til að með verkefni sem kallast The Ocean Cleanup Project verði hægt að hreinsa upp 40 prósent af plastinu úr höfum heims á næstu tíu árum. Hreinsitækin ganga allan sólarhringinn án þess að mannshöndin komi nærri og sækir orku sína til sjávarstrauma. Að þrjátíu árum liðnum gæti plast í sjónum heyrt sögunni til.

2.) Risapöndur ekki í útrýmingarhættu
Náttúruverndarsamtökin The International Union for Conservation tilkynntu í september að risapöndur væru ekki lengur í útrýmingarhættu. Talið er að 1.864 pöndur hafist við villtar í náttúrunni, að frátöldum húnum. Pöndurnar voru 1.596 árið 2004. Í Kína eru 67 virk verndarsvæði fyrir pöndur, sem ná yfir um 14 þúsund ferkílómetra lands.

Mynd: EPA

3.) Aðhafast vegna sölu fílabeins
Stjórnvöld í Kína hafa sett sér það markmið að koma böndum á verslun með fílabein. Beinin eru seld dýrum dómum á svörtum markaði þar sem kílóið kostar um 130 þúsund krónur. Talið er að aðgerðir kínverskra stjórnvalda hvað þetta varðar geti bjargað lífi um 20 þúsund fíla á ári. Fílar í heiminum er aðeins um 415 þúsund talsins.

Mynd: Reuters

4.) Gamlir hermenn fá húsaskjól
Ríkisstjórn Baracks Obama hefur frá árinu 2010 tekist að fækka heimilislausum fyrrverandi hermönnum um 50 prósent. Þetta hefur gerst hratt því frá því í janúar 2016 hefur heimilislausum fyrrverandi hermönnum fækkað um 16 prósent. Þetta er árangur af samstilltu átaki nokkurra stofnana bandaríska ríkisins. Tölurnar eru mjög afgerandi en búist er við að frekari fækkun eigi eftir að verða á komandi árum.

5.) Ísfötuáskorunin skilaði miklu
Æðið þegar fólk hellti vatni hvert yfir annað, og tók það upp á myndband, var ekki bara gagnslaus leikur. Herferðin fjármagnaði raunverulega rannsókn þar sem tókst að einangra genið sem veldur MND/ALS. Talið er að um sé að ræða tímamótarannsókn, sem gæti leitt til þess að hægt verði að lækna eða jafnvel fyrirbyggja MND-sjúkdóminn.

6.) Loka kolanámum
Stjórnvöld í Kína tilkynntu nýverið að eitt þúsund litlum kolanámum yrði lokað í landinu. Mengun í landinu er á stórum svæðum yfirgengileg. Stjórnvöld hyggjast jafnframt ekki veita nýjum námum starfsleyfi næstu þrjú árin. Þetta eru kannski lítil skref fyrir jafn stórt og mikið framleiðsluland og Kína, en ef til vill mikilvægur áfangi á leið til sjálfbærari orkunotkunar og viðleitni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá má einnig nefna að dregið hefur úr notkun jarðefnaeldsneytis á undanförnum árum.

Mynd: Reuters

7.) Sækýr ekki í útrýmingarhættu
The US Fish and Wildlife Service áformar að endurskilgreina stöðu sækúa. Dýrategundin þykir ekki lengur í útrýmingarhættu (e. endangered) heldur sé stofninn viðkvæmur (e. threatened). Ekki er hægt að fullyrði að sækýr séu úr allri hættu en þetta eru vissulega jákvæðar fréttir. Sækúm hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Fjölgunin í Flórída mælist þannig 500 prósent frá því að dýrategundin var sett á lista yfir dýr í útrýmingarhættu árið 1972. Í Flórída eru kýrnar 6.300 talsins.

8.) Friður í Kólumbíu
Kólumbísk stjórnvöld sömdu í nóvember frið við skæruliðahreyfinguna FARC en átök hafa geisað í landinu í um hálfa öld. Í október var friðarsamningi hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu, vegna þess að FARC þótti ná of miklu fram. Nýr samningur var gerður og hann samþykktur. Talið er að 220.000 manns hafi fallið í átökum stríðandi fylkinga og átta milljónir hafa þurft að yfirgefa heimili sín meðan á þeim hefur staðið.

9.) Ljósi varpað á umheiminn
Bandarísku geimvísindastofnuninni NASA tókst í sumar að koma geimfarinu Juno á braut um reikistjörnuna Júpíter. Bundnar eru vonir við að geimfarið skili ljósmyndum af Júpíter sem varpað geti ljósi á þróun reikistjörnunnar – og jafnvel um leið á tilurð sólkerfisins. Þetta gæti reynst mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að varpa ljósi á umheiminn.

10.) Friðun Great Bear-regnskógarins
Stjórnvöld í Kanada höfðu betur eftir 20 ára baráttu um Great Bear-regnskóginn. Kanadamenn fengu samþykkt að 85 prósent skógarins yrðu friðuð gagnvart skógarhöggi en samkomulag náðist við First Nations, náttúruverndarsinna og skógarhöggsiðnaðinn. Samkomulagið felur í sér að skógarhögg í þeim hluta skógarins þar sem höggva má, fer fram undir stífu eftirliti.

11.) Mislingar horfnir
Pan American-heilbrigðisstofnunin og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) tilkynntu í september að tekist hefði að eyða mislingum algjörlega í Norður- og Suður-Ameríku. Um er að ræða fimmta sjúkdóminn sem heilbrigðisyfirvöldum tekst að eyða með bólusetningu. Áður en bólusetning hófst, fyrir árið 1980, létust um 2,6 milljónir manna úr sjúkdómnum á þessum svæðum.

12.) HIV-smit niður um 67 prósent
Hlutfall HIV-smitaðra í Malaví var talið vera um 25 prósent árið 2000, en fyrsta smitið greindist í landinu árið 1985. Árið 2004 hófst átak gegn HIV-smiti og með því hefur á tólf árum tekist að lækka hlutfall sýktra niður í 10 prósent. Með því hefur verið komið í veg fyrir um 260 þúsund dauðsföll.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

13.) Friðun stórra hafsvæða
20 lönd komust í september að samkomulagi um friðun mikilvægra hafsvæða. Tilkynnt var um samkomulagið á Our Oceans-ráðstefnunni í Washington, þar sem Barack Obama flutti ávarp. Bandaríkin eiga stærsta hafsvæðið sem til stendur að friða en það spannar 1,1 milljónir ferkílómetra og er undan ströndum Havaí. Markmiðið er að vernda lífríki hafsins.

Mynd: Shutterstock

14.) Búa til neysluvatn úr sjó
Ísraelsmenn hafa hannað dælur sem hreinsa sjó þannig að úr verði drykkjarhæft vatn. Hér er ekki um að ræða neitt smáverkefni því dælurnar nægja til að sjá 1,5 milljónum manna fyrir drykkjarhæfu neysluvatni. Þetta kemur sér vel á svæði þar sem mestu þurrkar í 900 ár hafa gert vart við sig. Hér gæti verið á ferðinni framtíðarlausn hvað varðar drykkjarvatn fyrir önnur lönd og svæði.

15.) Hafa fundið skothelt mótefni
Ebola er einhver illvígasta farsótt sem herjað hefur á mannkynið. Tilraunir sem gerðar voru í Gíneu benda til þess að tekist hafi að framleiða bóluefni sem veitir í öllum tilvikum vörn gegn sjúkdómnum. Þetta mun að líkindum binda endi á faraldurinn í landinu en 11 þúsund manns hafa látist af völdum sjúkdómsins. Að baki rannsókninni stóðu Merck, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og ríkisstjórnir Kanada, Noregs og Gíneu.

16.) Vannæring á undanhaldi
Árið 2010 voru 821 milljón manna vannærð í heiminum. Í dag er talan 795 milljónir. Þó enn búi allt of margir við sáran skort verður ekki litið hjá því að vannærðum hefur fækkað um 26 milljónir. Það eru jafn margir og búa í Írak eða Venesúela.

17.) Tígrisdýrum fjölgar
Fyrir um 100 árum voru tígrisdýr í útrýmingarhættu. Þeim hefur hins vegar fjölgað nokkuð undanfarin ár. World Wildlife Fund hefur greint frá því að dýrunum hafi fjölgað um 690 frá árinu 2010. Nú eru dýrin tæplega 4.000 talsins.

Mynd: Copyright 2009

18.) Indverjar plöntuðu trjám
Gróður víkur stöðugt vegna ágangs mannsins. Indverjar settu árið 2013 heimsmet í gróðursetningu trjáa. Á einum degi, í júlí í fyrra, gróðursettu 800.000 sjálfboðaliðar 50 milljónir trjáa á einum degi. Þetta er heimsmet. Pakistanar áttu fyrra met en þeir gróðursettu 847 þúsund tré á einum degi árið 2013. Líklega er um að ræða met sem Íslendingar ættu bágt með að slá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi