fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Þetta bar hæst í október: Sigmundur hjólar í fjölmiðla, VG í hæstu hæðum og DV afhjúpar níðinga

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 29. desember 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

3. október – Sigmundur segist ætla í mál við fjölmiðla

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagðist ætla að höfða mál gegn þremur fjölmiðlum vegna umfjöllunar þeirra á fjármálum hans og eiginkonu hans, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, í tengslum við Wintris-málið svokallaða. Kom hann með þessa yfirlýsingu eftir að úrskurður yfirskattanefndar lá fyrir um hans mál. Í grein Sigmundar, sem bar yfirskriftina „Málalok“, segist hann fagna úrskurðinum sem staðfesti það sem hann hafi áður sagt um greiðslu skatta. Ekki gaf hann upp hvaða fjölmiðla hann myndi lögsækja en vildu margir meina að Sigmundur beindi spjótum sínum gegn Kjarnanum og Stundinni.

3. október – Hestur Miðflokksins vekur athygli

Merki hins nýstofnaða Miðflokks var kynnt og mátti þar sjá hvítt, prjónandi hross með norðurljósin í bakgrunni. Óhætt er að segja að ekkert annað merki stjórnmálaflokks hafi fengið viðlíkt umtal og um fátt annað var rætt næstu daga. Sumir hentu gaman að merkinu á meðan aðrir voru hrifnir. Reynt var að ráða í merkingu þess og rætt var um hvort það væri stolið. Sumir vildu meina að hrossið sjálft væri alls ekki íslenskt heldur arabískt.

Miðflokkurinn og hestur hans stálu senunni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Miðflokkurinn og hestur hans stálu senunni.

4. október – Vinstri grænir í hæstu hæðum

Skoðanakannanir fyrir þingkosningarnar í október voru flestar allar á einn veg. Samkvæmt þeim myndu Vinstri grænir verða óumdeildir sigurvegarar kosninganna og næstum tvöfalda þingstyrk sinn. Í könnun 4. október mældist fylgi Vinstri grænna tæplega 29 prósent og myndu þeir samkvæmt því fá 20 þingmenn. Fylgi flokksins dalaði smám saman í könnunum út mánuðinn eftir því sem áróðurinn og gagnrýnin á flokkinn harðnaði.

6. október – DV afhjúpar níðinga

DV gerði tilraun með því að búa til platprófíl unglingsstúlku á Facebook til að athuga hvort barnaníðingar myndu hafa samskipti við hana að fyrra bragði og reyna að tæla hana. Reglan var sú að tala ekki við þá að fyrra bragði. Fjölmargir föluðust eftir kynnum við stúlkuna og hittu blaðamenn tvo þeirra á fyrirfram ákveðnum stað og var þeim þá gert kunnugt um hvað væri á seyði. DV birti hluta af netsamskiptum við þá, myndir og samtöl á fundunum í stórri frétt í helgarblaðinu. Þetta var gert til þess að fólk áttaði sig á því í hversu mikilli hættu börn og unglingar eru þegar þeir samþykkja vinabeiðnir frá ókunnugum á netinu.

10. október – Jón Gnarr sendir fyrrverandi flokki sínum kaldar kveðjur

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, yfirgaf Bjarta framtíð sem spratt upp úr Besta flokknum og hann sjálfur tók þátt í að stofna árið 2012. Þess í stað gekk hann til liðs við Samfylkinguna og hóf launað starf fyrir flokkinn sem hann fékk bágt fyrir hjá sínum gömlu félögum. Jón sagðist hafa haft hug á því að taka þátt í starfi Bjartrar framtíðar en verið hálfpartinn flæmdur í burt á fundi. 10. október skrifaði hann harðorðan pistil um málið þar sem hann sagði meðal annars: „Þau hafa aldrei gefið mér neitt, nema þennan skít núna.“

11. október – Sagður fullur á framboðsfundi

Pétur Einarsson, annar maður á lista Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, var sagður hafa angað af áfengi og hagað sér sérkennilega á sameiginlegum framboðsfundi á vegum Hugins, skólafélags Menntaskólans á Akureyri. Upptaka af fundinum fór hátt á netinu og þar sást Pétur svara flestum spurningum á einkennilegan hátt, hvort sem þeim væri beint að honum eða ekki. Inga Sæland, formaður flokksins, sagði hann ekki hafa verið drukkinn en með einhvern „svartan húmor“ sem hún kunni ekki við. Ummæli Steingríms J. Sigfússonar hjá Vinstri grænum á fundinum um að sjálfstæðismenn væru „fatlaðir“ og „gætu ekki aflað“ tekna ollu líka miklu fjaðrafoki.

13. október – Matarsóun og slæm meðferð starfsfólks hjá Costco

Costco hefur valdið straumhvörfum á íslenskum smásölumarkaði eftir að búðinvar opnuð í maí og vilja margir meina til mikillar hagsældar fyrir íslensk heimili. DV gerði stóra úttekt á matarsóun og starfsmannamálum fyrirtækisins sem virðist í miklum ólestri. Rætt var við marga fyrrverandi starfsmenn sem fæstir vildu koma fram undir nafni vegna eigin atvinnumöguleika í framtíðinni. Sumir sögðu frá því að þeim blöskraði hvernig mat væri sóað og aðrir lýstu því hvernig breskir yfirmenn kæmu hrottalega fram við starfsfólk undir gríðarlegu álagi og segðu upp fólki fyrir minnstu sakir.

13. október – Lögbann á Stundina

Sýslumaður bankaði upp á hjá Stundinni og krafðist þess að fréttaflutningur af málefnum Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, úr gögnum Glitnis yrði hætt. Með sýslumanni í för var lögfræðingur Glitnis. Ekki var þó hægt að uppfylla allar kröfur lögbannsins af tæknilegum ástæðum. Málið olli mikilli úlfúð í samfélaginu og Bjarni sagðist ekki hafa beitt sér fyrir því, enda kæmi það hvorki honum sjálfum né Sjálfstæðisflokknum vel að banna fréttaflutning.

18. október – Lögbann á Loga

Logi Bergmann Eiðsson, fréttamaður 365, sagði upp störfum sínum og var sama dag ráðinn hjá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Átti hann að taka að sér dagskrárgerð á útvarpsstöðinni K100. Í samningi Loga við 365 var ákvæði um að hann mætti ekki vinna hjá samkeppnisaðila í 24 mánuði eftir uppsögn samningsins og fór fyrirtækið því fram á lögbannið. Af tillitssemi var þó einungis óskað eftir því að lögbannið gilti til tólf mánaða. Þar sem Logi hætti fyrirvaralaust fékk hann ekki greiddan uppsagnarfrestinn og 365 vildu ekki taka við honum aftur.

Sagði af sér eftir afhroð.
Óttarr Proppé ávarpar kosningavöku Bjartrar framtíðar Sagði af sér eftir afhroð.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

28. október – Kosningar

Kosið var snemma til Alþingis vegna stjórnarslita ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Sjálfstæðislokkurinn fékk mest fylgi en tapaði engu að síður fimm þingmönnum. Vinstri grænir bættu við sig einu prósentustigi og einum manni. Þótti það nokkurt áfall fyrir flokkinn sem flaug með himinskautum fram að því. Samfylkingin bætti við sig fjórum þingmönnum og Framsóknarflokkur hélt sínum átta. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins voru taldir sigurvegarar kosninganna og fengu sjö og fjóra þingmenn. Viðreisn hékk inni með fjóra menn eftir formannsskipti og Píaratar töpuðu fjórum. Þá þurrkaðist Björt framtíð út af þingi með einungis rúmt eitt prósent.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat