fbpx
Miðvikudagur 12.desember 2018
Fréttir

Ótrúlegur lífsvilji: Sagan um manninn sem var 28 tíma í hafinu

Brett Archibald var bjargað eftir 28 tíma í sjónum

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 9. nóvember 2017 22:00

Miðvikudagurinn 17. apríl 2013 rennur Brett Archibald seint úr minni. Þennan dag komst hann lygilega nálægt því að deyja eftir að hann féll útbyrðis af báti í Indlandshafi. Rúmur sólarhringur leið áður en honum var bjargað.

Aleinn

„Ég sá ljósin á bátnum hverfa hægt og rólega. Ég öskraði af öllum lífs- og sálarkröftum en áttaði mig fljótt á því að ég var einn,“ sagði Brett í viðtali við BBC ekki alls fyrir löngu.

Brett, sem er suðurafrískur ríkisborgari, var staddur skammt frá ströndum Indónesíu þegar atvikið varð eftir miðnætti þennan örlagaríka dag. Brett hafði ætlað að skella sér á brimbretti og var hann að ferðast milli staða þegar slysið varð. Brett hafði fengið matareitrun og fór hann upp á dekk til að kasta upp. Þá fór hann skyndilega að svima sem varð til þess að hann féll útbyrðis.

Aldrei möguleiki að ná bátnum

„Ég synti eins hratt og ég gat en það var ekki möguleiki fyrir mig að ná bátnum,“ sagði Brett, sem þarna var fimmtugur, í samtali við BBC. Eðli málsins samkvæmt var honum mjög brugðið og taldi hann að sín síðasta stund myndi brátt renna upp. Það er ekkert grín að vera í hafinu á þessum slóðum. Indlandshaf er stórt og þar má meðal annars finna hákarla sem Brett þurfti síðar að glíma við.

Brett gerði samkomulag við sjálfan sig um að gera sitt besta til að komast af við þessar erfiðu aðstæður. Klukkutímarnir liðu og smátt og smátt missti hann þrekið. Til allrar hamingju er hitastig sjávar á þessum slóðum nokkuð bærilegt og því varð honum aldrei neitt sérstaklega kalt, nema kannski síðustu klukkutímana, þó vissulega hafi verið kuldalegt að hírast í hafinu.

Leitin að Brett Archibald.
Skrifaði bók Leitin að Brett Archibald.

Mávarnir vildu augun

Brett naut góðs af því að vera öflugur brimbrettakappi – og um leið ágætur sundmaður. Hann kunni því að halda sér á floti og sigrast á þeim öldum sem á honum dundu reglulega. Brett náði að halda sér á floti og þegar margir klukkutímar voru liðnir dottaði hann í sjónum. Hann var vakinn þegar tveir mávar sveimuðu í kringum hann í von um eitthvað ætilegt. Þeir reyndu að gogga í augu hans og voru árásargjarnir.

Brett ákvað að snúa vörn í sókn og hugsaði með sér að ef hann gæti náð öðrum þeirra gæti hann mögulega borðað þá – og um leið orðið sér út um mikilvæga orku. Því miður varð honum ekki að ósk sinni og létu mávarnir sig hverfa þegar þeir áttuðu sig á því að þeir kæmust ekki lengra með bráðina að sinni.

„Ég hef aldrei orðið fyrir jafn miklum vonbrigðum. Ég fór næstum því að gráta.“

Hákarl til bjargar?

Brett áætlar að hann hafi verið búinn að vera fimmtán klukkustundir í hafinu þegar forvitinn hákarl kom að honum. Brett óttaðist í fyrstu að hákarlinn myndi éta hann og rifjar hann upp í samtali við BBC að á þeim tímapunkti hafi hann ekki verið neitt sérstaklega mótfallinn þeim örlögum. Síðar áttaði hann sig á því að um var að ræða sárasaklausan hákarl, svokallaðan Blakctip Reef-hákarl.

Brett segist hafa hugsað með sér að mögulega gæti hann náð taki á hákarlinum og hákarlinn synt með hann í átt að landi. Hann hafði lesið það í einhverri bók að hákarlar gætu mögulega gert fólki þann greiða, eins einkennilega og það hljómar. En, áður en af því varð synti hákarlinn í burtu. „Ég hef aldrei orðið fyrir jafn miklum vonbrigðum. Ég fór næstum því að gráta,“ segir hann.

Aftur í sjóinn

Þegar þarna var komið við sögu hafði fjölmennt leitarlið var sent til leitar að honum og eftir tuttugu og átta klukkustundir í sjónum var honum loksins bjargað. Þá hafði hann rekið um 20 kílómetra. Það voru félagar hans um borð í bátnum sem höfðu samband við strandgæsluna þegar hann skilaði sér ekki í morgunmatinn daginn eftir. Þeir voru fljótir að átta sig á því að hann hafði fallið útbyrðis.

Það var þó í raun fyrir hreina tilviljun að hann fannst. Áströlsk hjón, sem voru á ferð á þessum slóðum, komu auga á hann í hafinu og björguðu honum. Hann var fluttur rakleitt á sjúkrahús þar sem hann dvaldi um skamma hríð. Honum varð ekki alvarlega meint af þó hann hafi lést um sex kíló á þessum rúma sólarhring.

Þrátt fyrir þessa erfiðu lífsreynslu segist Brett ekki óttast hafið og raunar var hann kominn aftur í sjóinn á brimbretti nokkrum dögum eftir að honum var bjargað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Ágúst Ólafur svarar Báru Huld: Misræmið byggir á ólíkri upplifun

Ágúst Ólafur svarar Báru Huld: Misræmið byggir á ólíkri upplifun
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Veikindi Hafdísar hættu um leið og kísilverið í Helguvík lokaði: „Hóstaði stanslaust og enginn skildi hvað var í gangi“

Veikindi Hafdísar hættu um leið og kísilverið í Helguvík lokaði: „Hóstaði stanslaust og enginn skildi hvað var í gangi“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Telja að dýraverndunarlög hafi verið brotin við hvalveiðar

Telja að dýraverndunarlög hafi verið brotin við hvalveiðar
Fréttir
Í gær

Aleksandr er verkamaður í byggingarvinnu og spilar rússnesk ástarlög: „Ég þrái konu sem elskar mig“

Aleksandr er verkamaður í byggingarvinnu og spilar rússnesk ástarlög: „Ég þrái konu sem elskar mig“
Fréttir
Í gær

Jón ósáttur við Frosta og Mána: „Þessi ósmekklega árás var ekki bara á mig heldur á alla fjölskylduna mína“

Jón ósáttur við Frosta og Mána: „Þessi ósmekklega árás var ekki bara á mig heldur á alla fjölskylduna mína“
Fréttir
Í gær

Aftur tekist á um Gunnar Nelson: „Maður á nærbuxunum fagnar því að hafa slasað annan mann“

Aftur tekist á um Gunnar Nelson: „Maður á nærbuxunum fagnar því að hafa slasað annan mann“