fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Krefst að spilliefnum Kratus verði fargað

– Mörg hundruð tonn af úrgangsryki safnast upp á Grundartanga – Hótað dagsektum

Ritstjórn DV
Laugardaginn 25. júní 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umhverfisstofnun gaf í síðustu viku forsvarsmönnum Kratus ehf. lengri frest til að koma um 530 tonnum af spilliefnum af lóð fyrirtækisins á Grundartanga. Stofnunin hefur krafið fyrirtækið, sem vinnur ál úr álgjalli, um úrbætur síðustu þrjú ár og hótað dagsektum. Spilliefnin, síuryk og fínryk, eru úrgangur úr verksmiðjunni sem er geymdur í lokuðum gámum á lóðinni og í geymslu í Hafnarfirði. Margar aðrar athugasemdir hafa verið gerðar við starfsemina en framkvæmdastjóri fyrirtækisins lofar úrbótum.

„Það hefur dregist að finna aðila til að taka á móti þessum efnum. En nú er kominn erlendur aðili sem getur hugsanlega tekið við þessu til útflutnings,“ segir Matthías Matthíasson, framkvæmdastjóri Kratus.

Fékk lengri frest

Umhverfisstofnun sendi forsvarsmönnum Kratus bréf í nóvember síðastliðnum og hótaði álagningu dagsekta. Stóð þá til að sekta fyrirtækið um 50 þúsund krónur á dag frá og með 16. febrúar. Ástæðan var sú að fínryki hafði ekki verið skilað til viðeigandi spilliefnamóttöku og útflutningur á síuryki til endurvinnslu ekki hafinn. Stofnunin hafði áður gefið frest til 1. janúar 2015 og bent á að varanleg geymsla úrgangs á lóðinni, sem hefur safnast upp síðan verksmiðja Kratus hóf starfsemi í nóvember 2012, er óheimil.

Þann 14. júní síðastliðinn samþykkti Umhverfisstofnun nýja úrbótaáætlun forsvarsmanna Kratus og frestaði álagningu dagsekta til 1. desember 2017. Þeim hafði þá tekist að vinna birgðirnar af spilliefnunum niður að hluta eða í 530 tonn. Matthías fullyrðir í samtali við DV að fyrirtækið geti uppfyllt allar kröfur stofnunarinnar innan nýju tímamarkanna.

„Það er verið að vinna í öllum málum og Umhverfisstofnun því búin að samþykkja úrbótaáætlun og gefa lengri frest,“ segir Matthías.

Ætla að malbika

Nokkrum dögum eftir að Umhverfisstofnun sendi bréfið í nóvember fóru starfsmenn stofnunarinnar í fyrirvaralausa eftirlitsferð í verksmiðjuna. Ástæðan var ábending frá slökkviliðsstjóra Vesturlands um „megna ammóníakslykt á lóðinni“. Fyrirtækið hafði þá keypt fyrirtækið Al álvinnslu í Helguvík og flutt bræðsluofn þess og hreinsivirki upp á Grundartanga. Eftir þá heimsókn var bent á að hráefni og úrgangur rúmaðist ekki innan lóðarinnar og að hún væri óafgirt og ekki malbikuð. Því væri ekki hægt að tryggja að efnaleki yrði ekki í jarðveg „enda breytist lóðin í forarpytt í vatnsveðrum“.

„Lóðin verður malbikuð í sumar og haust og það eru framkvæmdir í gangi. Við höfum frest til þess og það er áætlað að allar framkvæmdir við stækkun á húsi og lóð verði lokið fyrir lok árs,“ segir Matthías.

Sektað 2014

Í júní 2014 ákvað Umhverfisstofnun að beita Kratus dagsektum þegar í ljós kom að svokölluð saltkaka, spilliefni sem getur myndað eldfim gös í hættulegu magni komist hún í snertingu við vatn, var geymd óvarin á malarplaninu. Dagsektum var þá frestað eftir úrbætur. Í desember síðastliðnum gerði Umhverfisstofnun einnig athugasemdir við að álflökur, sem innihalda ýmis óhreinindi sem ekki má geyma á möl, væru geymdar utandyra og að ekki hafi verið tilkynnt um bilun í mengunarvarnabúnaði til stofnunarinnar.

Kratus er í eigu Stefáns Arnars Þórissonar, Eyþórs Arnalds, fyrrverandi bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks í Árborg, og Arthurs Garðars Guðmundssonar. Þeir eru einnig hluthafar í GMR Endurvinnslunni ehf. á Grundartanga sem endurvinnur brotamálma og þá aðallega stál sem fellur til við rekstur álvera hér á landi. Umhverfisstofnun hefur einnig gert margar athugasemdir vegna starfsemi GMR og tóku starfsmenn hennar í janúar síðastliðnum ákvörðun um að auka eftirlit með henni. GMR hóf rekstur á Grundartanga árið 2013 og hefur Umhverfisstofnun síðan þá skráð á þriðja tug frávika frá starfsleyfi. Saga fyrirtækisins og takmarkaðar úrbætur hafa orðið til þess að stofnunin skoðaði í vor hvort ástæða væri til að grípa til annarra og meira íþyngjandi úrræða en dagsekta eins og takmörkunar á starfseminni eða afturköllunar starfsleyfis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi