„Vefjagigt er jafnraunverulegur sjúkdómur og kransæðastífla“, sagði Arnór Víkingsson gigtarlæknir í samtali við Pressuna fyrir ári síðan. Það vísaði hann á bug þeim hugmyndum að vefjagigt ætti sér sálrænar skýringar eða væri ímyndunarveiki. Sagði hann slíka fordóma auka á vanlíðan sjúklinga. Nú segir á vefnum Vefjagigt.is að hægt sé að staðfesta vefjagigt með blóðrannsókn. Áður hafi það einungis verið mögulegt með spurningalistum.
Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari segir um þessi tíðindi:
„Það eru, því miður, enn nokkrir sem efast um tilurð vefjagigtar einvörðungu út af því að ekki hefur tekist að greina meinið með hefðbundnum rannsóknaraðferðum. Þó hefur verið sýnt fram á sjúkleika og truflun í ýmsum líffærakerfum með rannsóknaraðferðum sem ekki er hægt að nota í klínik, má þar nefna röng hlutföll í taugaboðefnum í heila- og mænuvökva, skert blóðfæði í heila (SPECT), aukin virkni í verkjakerfi heilans ( F-MRI), truflun í ósjálfráða taugakerfinu (ANS).“
Verkir. Þreyta. Svefntruflanir. Morgunstirðleiki. Lestrar-, tal- og minniserfiðleikar. Einbeitingarskortur. Svíðandi tilfinning í húðinni. Náladofi og dofatilfinning í fingrum, tám og í kringum munninn. Þunglyndishugsanir. Höfuðverkur. Jafnvægisröskun. Hjartsláttarköst og andþrengsli. Órólegur ristill og þvagblaðra. Tíðatruflanir (sársaukafullar, óreglulegar og miklar blæðingar). Streita og óróleiki í líkamanum. Aukin næmni gagnvart sterkri lykt, sterku ljósi og hávaða
Sigrún bætir við:
„Ítrekað hefur verið reynt að finna þætti í blóði sem eru sértækir fyrir vefjagigt og á síðust 3 árum hefur verið þróað blóðpróf sem talið er að geti staðfest vefjagigt með 99% vissu.“
Prófið mælir meðal annars prótein í blóði og hefur verið í þróun staðið yfir síðustu tíu árin.
„Fólk með vefjagigt er með truflun í ónæmiskerfinu – þeirra kerfi er veikara en heilbrigðra og fólks með aðra gigtarsjúkdóma. Í vefjagigt eru ekki merki um gigtarþætti í blóði sem valda bólgusvörun í vefjum sem er grunnþáttur í meingerð annarra gigtarsjúkdóma.“
Prófið var fyrst kynnt árið 2013 og var þá talið 93% markvisst. Prófið nú er talið gefa 99% nákvæmni. Eins og staðan er núna er prófið aðeins í boði í Bandaríkjunum. Hvort lækning sé í sjónmáli er annað mál. Aðspurður um það sagði Arnór:
„Ekki innan næstu fimm ára. Þetta er afar flókið og vandasamt verkefni. En lækning við vefjagigt mun finnast einhvern tíma, um það er ég sannfærður.“