Klæðaburður Guðna Th. Jóhannessonar um helgina vakti mikla athygli. Þá tók Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður Morgunblaðsins mynd af Guðna með buff á höfði þegar hann afhjúpaði upplýsingaskilti á landi Bessastaða.
Buffið er vinsælt hjá yngri kynslóðinni en ekki voru allir á eitt sáttir að Guðni væri með þetta höfuðfat og ótal margir sem sögðu skoðun sína á því. Stóð Vísir meðal annars fyrir könnun hvort Guðni ætti að bera buffið.
Guðni kemur stuttlega inn á þetta í pistli á Facebook-síðu forsetans þar sem hann heimsótti Fríðuhús sem Alzheimer-samtökin reka í Reykjavík en buffið sem Guðni notaði er merkt samtökunum. Guðni segir:
„Ég spjallaði við fólkið á staðnum og þáði fallegar gjafir, meðal annars forláta höfuðfat, fyrirtaks buff, merkt samtökunum. Það hefur þegar komið í góðar þarfir og hvet ég alla til að leggja Alzheimer-samtökunum lið. Á þeirra vegum er unnið gott starf.“
Eiginkona Guðna, Eliza Reid var á ferðalagi erlendis og fór í viðtal hjá kanadískri sjónvarpsstöð á meðan Guðni vakti athygli fyrir buffið. Hún birti status núna í morgun og birtir mynd af Guðna með buffið og segir:
„Ég fer úr landi í nokkra daga og sjáið hvað gerist“
Innleggið er á léttu nótunum og fær Guðni mikið hrós frá erlendum vinum forsetahjónanna og segir einn þeirra frá Bandaríkjunum að hann tæki Guðna fram yfir þeirra forseta alla daga.