fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Jólaspilin 2018 skoðuð: Partners+, Carcassonne, Cortex og Shit Happens

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 12. desember 2018 23:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt sinn var bannað að spila á jólum. En eftir að fór að slakna á trúrækni landans urðu jólin að helsta spilatíma ársins. DV skoðaði nokkur af helstu spilunum sem koma út fyrir jólin.

 

Mynd
Nordic Games

Partners+ – Einfalt spil en flókin sálfræði

Partners hefur notið einstakra vinsælda á Íslandi undanfarin ár. Spilið er tuttugu ára gamalt og hingað til hefur það einungis verið fyrir fjóra eða tvö pör af leikendum. Nú í ár kom út sex manna útgáfa, Partners+, sem er fagnaðarefni enda eru þrjú pör algengur fjöldi í matarboðum.

Partners og Partners+ er stílað inn á eldri markhóp, fólk á fertugsaldri og upp úr. Það er ekkert þema eða flottar myndir heldur byggir spilið algerlega á kænsku. Jú og nokkru leyti á heppni líka. Í grunninn er þetta Lúdó, hið forindverska spil sem allir þekkja. Hins vegar er mun meira spunnið í Partners og í raun skrýtið að það hafi aldrei náð meiri útbreiðslu en á Norðurlöndunum.

Í stað teninga eru notuð spil til að komast fram og aftur um borðið. Takmarkið er að koma peðunum sínum í mark eins og í Lúdó. Spilið er sáraeinfalt en sálfræðin á bak við það er flókin því að leikmenn þurfa að skiptast á spilum án þess að vita hvað liðsfélaginn er með. Hvaða spil er hann með á hendi og hversu vel þekkir þú hann til að spila út réttu spilunum á rétta tímanum?

Partners+ tekur vitaskuld lengri tíma að spila en Partners og ófyrirsjáanleikinn verður meiri þegar fleiri leikmenn eru á borðinu. Aðrir leikmenn geta skemmt fyrir og spilið því orðið svolítið kvikindislegt. Partners+ gæti ratað í marga jólapakkana í ár, sérstaklega hjá þeim sem þekkja og hafa góða reynslu af fyrra spilinu.

 

Mynd
Nordic Games

Carcassonne – Litríkari útgáfa af sígildu spili

Carcassonne er langt frá því að vera nýtt spil. Það kom út árið 2000 og er eitt af flaggskipum hinnar evrópsku byltingar í borðspilamennsku sem hófst árið 1995 með Landnemunum á Catan. Carcassonne er eitt af vinsælustu og aðgengilegustu spilum þessarar aldrar og eru til mýmargar viðbætur við það.

Spilið var endurútgefið árið 2015. Sú útgáfa var nýlega gefin út á íslensku hjá Nordic Games en áður hafði Ísöld gefið út fyrstu útgáfuna. Engum reglum hefur verið breytt. Eini munurinn er útlitið og er spilið nú mun skærara og litríkara en áður.

Spilið er fyrir 2 til 5 leikmenn sem skiptast á að leggja niður reiti sem sýna borgir, akra, vegi eða klaustur. Reyna þeir að klára heil sett og skora fyrir það stig. Spilið krefst nokkurrar kænsku og getur verið ansi andstyggilegt á köflum. En vegna þess hversu stutt það er ristir vonskan aldrei djúpt.

 

Shit Happens – Hvort er verra að eignast tvíbura eða fá munnangur?

Shit Happens hefur slegið í gegn síðan það kom fyrst út árið 2016. Fellur það í sama flokk og önnur nýmóðins og grófari partíspil á borð við Cards Against Humanity og Exploding Kittens. Þetta eru spil sem slá hvað best í gegn þegar óminnishegrinn er farinn að láta á sér kræla eða svefngalsi orðinn mikill.

Í Shit Happens er takmarkið að ná að raða spilum upp í rétta röð líkt og í spilum á borð við Timeline. Á hverju spili er einhver hörmung. Til dæmis „Að fá munnangur“, „Að horfa á klámmynd af foreldrum sínum“ og „Að lenda í fimm ár í þriðja heims fangelsi.“ Spilin hafa svo fyrir fram gefna einkunn um hversu mikil hörmungin er, á skalanum 0 til 100. Sá fyrsti til að ná tíu spilum í röð sigrar.

Shit Happens er bráðfyndið og þjónar sínum tilgangi mjög vel þó að undirritaður sé ekki ávallt sammála einkunnunum. Shit Happens hefur sama galla og Timeline, það er að spilin festast á minnið. En líkt og með Timeline þá eru þegar komnir út fleiri pakkar af Shit Happens sem hægt er að blanda saman við.

 

Mynd Nordic Games

Cortex – Sá sem er sneggstur að hugsa vinnur

Cortex kom fyrst út árið 2016 og nú eru komnar út nokkrar útgáfur af spilinu. Til dæmis barnaútgáfa og djörf fullorðinsútgáfa. Hægt er að blanda pökkunum saman þó að kannski sé ekki ráðlagt að blanda einmitt þeim tveim síðastnefndu saman.

Cortex er eitt af þessum spilum sem er hægt að spila eftir reglunum…..eða ekki. Þetta er samansafn af þrautum sem vel er hægt að leika sér með án þess að vera í einhverri keppni. Ef maður vill spila samkvæmt reglum er takmarkið að safna fjórum heilabrotum og sá sem gerir það fyrstur vinnur. Ástæðan fyrir því hversu vinsælt það er er einfaldleikinn og meðfærileikinn.

Þrautirnar eru margs konar. Til dæmis minnisþrautir, samhæfingarþrautir, talningaþrautir og margt fleira. Þær skemmtilegustu en jafn framt erfiðustu eru snertiþrautirnar. Allar þrautirnar eiga það sameiginlegt að snúast um tíma og sá sem er sneggstur að hugsa vinnur.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun