Aron Einar Gunnarsson miðjumaður Cardiff og fyrirliði Íslands er á leið í aðgerð vegna meiðsla á hné.
Aron fór meiddur af velli í leik með Cardiff í gær. Óvíst er hvort hann geti verið með á HM en hann er bjartsýnn.
Aron fór í myndatöku í dag sem leiddi í ljós alvarleika meiðslanna. Hann verður í kapphlaupi við tímann fyrir leik Íslands gegn Argentínu þann 16 júní
,,Ég fann stingandi sársauka og ég vissi strax að þetta var alvarlegt. Ég fór svo í myndatöku í morgun og fékk að vita hver staðan væri. Ökklinn er tognaður en svo er rifa í utanverðum liðþófa í hnénu,“ segir Aron Einar í fréttatilkynningu.
„Ég fer í litla aðgerð annað kvöld og svo tekur bara við strangt endurhæfingarferli. Ég er í góðum höndum hérna í Wales. Það eru topplæknar og sjúkraþjálfarar sem meðhöndla mig og mér er sagt að ef allt gengur að óskum þá eigi ég góðan möguleika á að vera kominn í stand áður fyrsti leikurinn okkar verður flautaður á í Moskvu. Tíminn verður að leiða þetta í ljós en ég kýs að vera jákvæður og bjartsýnn.“
Gylfi Þór Sigurðsson er að jafna sig eftir meiðsli og á að vera klár í slaginn en fleiri lykilmenn eru í að ströggla við meiðsli.