Nokkrir leikmenn Chelsea sem keyptir voru á stórar fjárhæðir og skrifuðu undir langa samninga eru sagðir vera orðnir órólegir á slöku gengi liðsins.
Chelsea hefur gengið allt á afturfótunum að undanförnu og í raun alveg síðan Roman Abramovich seldi félagið eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Chelsea er í 11. sæti deildarinnar með 31 stig og bendir ekki margt til þess að liðið nái Evrópusæti á næsta tímabili.
The Athletic segir að nokkrir leikmenn, sem áttu að vera lykilmenn í uppbyggingu félagsins, séu komnir með bakþanka eftir að hafa samið við félagið.
Engir leikmenn eru nefndir á nafn en þó bent á að Enzo Fernandez, Moises Caiced, Mykhailo Mudryk og Nicolas Jackson hafi skrifað undir langa samninga. Allir þessir leikmenn eru samningsbundnir Chelsea til ársins 2031.
Aðrir leikmenn eru með samninga til ársins 2030, til dæmis Romeo Lavia, Cole Palmer, Noni Madueke, Robert Sanchez og Benoit Badiashile.
Í umfjöllun The Athletic, sem Daily Mail vitnar til, kemur fram að leikmenn hafi rætt þessi mál sín á milli og séu ósáttir með þær litlu framfarir sem hafa orðið á leik liðsins. Þá hafi einhverjir gagnrýnt að félagið hafi selt þeim ákveðna hugmyndafræði en þeim orðum hafi ekki fylgt neinar efndir.
Chelsea mætir Aston Villa á útivelli í enska bikarnum í kvöld og er viðbúið að erfitt verkefni bíði liðsins enda Aston Villa í harðri Meistaradeildarbaráttu. Svo eru fram undan tveir leikir í ensku deildinni; heimaleikur gegn Crystal Palace um helgina og svo útileikur gegn Manchester City.