fbpx
Laugardagur 10.janúar 2026
Pressan

Var konan sem ICE skaut til bana aktívisti? – Fjölskyldan kemur af fjöllum en nágrannar syrgja baráttukonu

Pressan
Föstudaginn 9. janúar 2026 12:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríska útlendingaeftirlitið ICE skaut konu til bana á miðvikudaginn. Konan var 37 ára gömul og hét Renee Nicole Good. Andlát hennar hefur vakið gífurlega athygli og pólitískar deilur. Annars vegar segir ríkisstjórnin að ekkert saknæmt hafi átt sér stað þar sem ICE-fulltrúinn sem skaut Good til bana hafi réttilega talið lífi sínu ógnað. Hins vegar bendir fólk á að af myndböndum af atvikinu megi ráða að Good hafi engum ógnað.

Minneapolis logar nú í mótmælum.

Myndböndin

Myndböndin sýna vissulega að fulltrúi ICE hafi staðið við bifreið Good og að hún hafi ekki orðið við fyrirmælum um að yfirgefa bílinn. Vitni segja þó að þarna hafi nokkrir fulltrúar ICE verið að öskra mismunandi fyrirmæli á Good, sumir sagt henni að yfirgefa bílinn en aðrir sagt henni að snúa við og fjarlægja bifreið sína af veginum. Skiptar skoðanir eru á því hvort Good hafi ætlað sér að aka yfir fulltrúa ICE eða hvort hún hafi hreinlega verið að reyna að koma sér úr hættulegum aðstæðum. Upplýsingaóreiða vegna málsins er töluverð og má sem dæmi nefna að Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt því fram í færslu á samfélagsmiðlum að Good hafi ekið yfir fulltrúa ICE sem í kjölfarið hefði barist fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi. Myndbönd sýna þó skýrt að fulltrúinn lenti ekki undir bifreiðinni. Hann skaut Good í gegnum framrúðu og rúðuna bílstjóramegin en við það virðist Good hafa neglt niður bensíngjöfinni. Bifreiðin flaug áfram nokkra metra áður en hún hafnaði á öðrum bíl sem var lagt í vegakanti. Líklega var þar um ósjálfráð viðbrögð að ræða þar sem Good hafði verið skotin í höfuðið.

Heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, Kristi Noem, sagði á blaðamannafundi skömmu eftir atvikið að Good hefði verið hryðjuverkamaður og ríkisstjórn Trumps hefur bergmálað þessi orð undanfarna daga. Hún hafi verið atvinnumótmælandi og þaulþjálfuð í að berjast við ICE-fulltrúa.

Þekktu hana ekki sem aðgerðarsinna

Fjölskylda Good segir þetta þó af og frá. Móðir hennar segir að Good hafi aldrei tekið þátt í mótmælum. Hún hafi verið góðhjörtuð með eindæmum og með mikla samkennd. Fyrrverandi eiginmaður hennar tekur í sama streng og segir að Good hafi ekki verið aktívisti og aldrei mætt á mótmæli, svo hann vissi til. Þennan örlagaríka dag hafi hún verið á heimleið eftir að hafa skutlað sex ára syni sínum í skólann.

Good var þriggja barna móðir. Hún átti tvö eldri börnin með fyrsta eiginmanni sínum en yngsta barnið átti hún með eiginmanni númer tvö sem lést árið 2023. Sex ára drengurinn er því munaðarlaus. Þegar Good lést var hún búsett í Minneapolis með eiginkonu sinni, Rebeccu, sem er smiður og saman ráku þær fyrirtæki sem sérhæfði sig í heimilisviðhaldi.

Hjónin flutti nýlega til Minneapolis eftir að hafa búið um nokkurra mánaðaskeið í Kanada, en þangað fluttu þær eftir að Donald Trump var kjörinn forseti í annað sinn.

Viðspyrnuhreyfing

New York Post greinir frá því að þó að fjölskylda Good hafi ekki þekkt hana sem aðgerðarsinna þá hafi hún orðið slíkur eftir að hún flutti til Minneapolis. Þar hafi hún tengst viðspyrnuhóp sem kallast ICE Watch, en hún kynntist hópnum í gegnum skóla sonar síns. Skólinn kallast Soutside Family Charter School og leggur hann áherslu á félagslegt réttlæti í kennslu. New York Post tekur fram að þessi hópur hafi þjálfað Good í því að veita ICE viðspyrnu og að meðlimir hópsins líti á sig sem stríðsmenn.

ICE watch-hópar eru starfræktir víða um Bandaríkin. Þegar þessir hópar tengjast grunnskólum er markmiðið fyrst og fremst að vernda nemendur af erlendum uppruna, en ICE hefur meðal annars stundað það að handtaka börn og foreldra á skólalóðum. Þjálfunin sem miðillinn vísar til felst í því að þekkja rétt sinn. Meðlimir eiga að fylgjast með, skrásetja, reyna að telja ICE hughvarft og draga úr stigmögnun.

Í leiðbeiningum sem ICE Watch í New York hefur birt segir: „Fólk sem er ekki með bandarískan ríkisborgararétt, sérstaklega ef það er hér ólöglega eða er á sakaskrá, er í sérstakri hættu þegar það tekur þátt í að vakta ICE eða lögregluna, hættu sem beinist ekki gegn bandarískum ríkisborgurum.“

Markmið ICE Watch er að tryggja að ekki sé brotið gegn réttindum innflytjenda í aðgerðum ICE og að tryggja sönnunargögn með því að skrásetja aðgerðir með myndböndum og vitnisburði. Eins stunda meðlimir það gjarnan að vara hverfi við því þegar ICE mætir á svæðið og að reyna að tefja aðgerðir svo innflytjendur komist í felur. Skýrt kemur þó fram í flestum leiðbeiningum að best sé að fara að fyrirmælum ICE og að veita ekki líkamlegt viðnám því slíkt geti stofnað lífi og heilsu fólks í hættu.

Fjölmiðlar hafa nú nafngreint ICE-fulltrúann sem banaði Good. Hann heitir Jonathan Ross og hafði mögulega réttmæta ástæðu til að óttast Good. Hann slasaðist töluvert í júní á þessu ári í aðgerðum sem beindust gegn ólöglegum innflytjanda frá Mexíkó. Brottvísa átti innflytjandanum þar sem hann var ólöglega í landinu og hafði auk þess gerst sekur um kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni. Innflytjandinn var í bifreið sinni þegar ICE nálgaðist hann og reyndi að flýja. Ross braut bílrúðu til að reyna að aflæsa bifreiðinni en við það ók innflytjandinn af stað og Ross dróst með bifreiðinni og skarst illa á hendi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Þetta er konan sem var skotin til bana í Minneapolis í gær – 37 ára þriggja barna móðir

Þetta er konan sem var skotin til bana í Minneapolis í gær – 37 ára þriggja barna móðir
Pressan
Í gær

Vendingar í máli manns sem var rekinn vegna færslu um Charlie Kirk

Vendingar í máli manns sem var rekinn vegna færslu um Charlie Kirk
Pressan
Fyrir 2 dögum

Sakar mótleikkonu um að hafa leitt sig í gildru – Neitaði staðgengli í kynlífssenum

Sakar mótleikkonu um að hafa leitt sig í gildru – Neitaði staðgengli í kynlífssenum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Læknanemi sakaður um að hrinda gömlum manni fyrir járnbrautarlest

Læknanemi sakaður um að hrinda gömlum manni fyrir járnbrautarlest
Pressan
Fyrir 4 dögum

Trump varð brjálaður þegar hann sá Maduro dansa – Þremur dögum seinna réðst herinn inn í Venesúela

Trump varð brjálaður þegar hann sá Maduro dansa – Þremur dögum seinna réðst herinn inn í Venesúela
Pressan
Fyrir 4 dögum

Blaut tuska í andlit Nóbelsverðlaunahafa – Trump treystir henni ekki til að fara með völdin í Venesúela

Blaut tuska í andlit Nóbelsverðlaunahafa – Trump treystir henni ekki til að fara með völdin í Venesúela