
Eins og kunnugt er hafa bandarísk yfirvöld gert árásir á báta frá Venesúela sem grunuð eru um að flytja fíkniefni og nú ætlar hann að beina spjótum sínum að Mexíkó.
„Við ætlum að byrja, strax, að gera árásir á landi gegn eiturlyfjahringjunum,“ sagði Trump í viðtali við Sean Hannity þáttastjórnanda Fox News.
„Eiturlyfjahringirnir stjórna Mexíkó, og það er mjög sorglegt að horfa upp á það sem er að gerast í því landi. En hringirnir stjórna því. Þeir eru að drepa 250.000, 300.000 manns í landinu okkar á hverju einasta ári,“ sagði Trump.
Óvíst er hvernig stjórnvöld í Mexíkó munu taka hótunum Trumps en Claudia Sheinbaum, forseti landsins, sagði í vikunni að landið væri frjálst og fullvalda og það hafni afskiptum af innanríkismálum annarra ríkja.
„Nauðsynlegt er að árétta að í Mexíkó ræður fólkið, og að við erum frjálst og fullvalda ríki. Samstarf, já. Undirgefni og íhlutun, nei,“ sagði hún.
Frá því í september hafa Bandaríkjamenn drepið að minnsta kosti 115 manns í meira en 30 árásum á báta í Karíbahafi og Kyrrahafi. Sagði Trump í viðtalinu að mikill árangur hefði náðst en nú þyrfti að beina spjótum sínum að glæpagengjum á landi.