
Árið 1984 var ráðist á ungt par í Kaliforníu. Hinn 18 ára gamli Terry Arndt var skotinn til bana og kærustu hans var nauðgað. Það var svo loksins í desember, rúmlega 40 árum eftir martröðina, sem hinn seki var loksins dreginn til ábyrgðar. Roger Neil Schmidt játaði sök í málinu þann 1. desember á síðasta ári og var dæmdur í lífstíðarfangelsi um hálfum mánuði síðar.
Terry Arndt sat í bifreið sinni þann 14. desember árið 1984. Við hlið hans sat kærasta hans, en bæði voru þau 18 ára gömul. Skyndilega birtist önnur bifreið sem var ekið þétt upp að bifreið Arndts og síðan hófst skothríðin. Arndt kastaði sér yfir kærustu sína til að reyna að skýla henni og fékk þá yfir sig kúlnaregnið. Skotmaðurinn steig þá út úr bifreiðinni, enn vopnaður byssu og dró kærustuna út og nauðgaði henni ítrekað. Síðan ók skotmaðurinn af vettvangi.
Kærastan hefur aldrei verið nafngreind í málinu. Eftir að skotmaðurinn hafði lokið sér af ýtti hún Arndt til hliðar svo hún gæti ekið þeim á næsta sjúkrahús í von um að hægt væri að bjarga honum. Hann var þó úrskurðaður látinn skömmu eftir komuna. Kærastan kannaðist ekkert við skotmanninn og gekk lögreglu því illa að rannsaka brotin. Málið endaði því ofan í skúffu og safnaði ryki allt þar til tækniframfarir gerðu lögreglu kleift að nálgast rannsóknina með nýjum hætti. Erfðaefni úr skotmanninum hafði verið varðveitt og framfarir í DNA-greiningu ásamt víðtækum gagnagrunnum komu lögreglu loks á sporið.
Það var svo í júlí sem lögregla fékk erfðaefni úr Roger Neil Schmidt til að staðfesta að hann væri skotmaðurinn. Schmidt ákvað að flækja málið ekki frekar og játaði sök í yfirheyrslu. Kærastan las upp yfirlýsingu í dómsal þar sem hún sagði Schmidt hafa valdið sér ómældu tjóni.
„Áfallið sem þetta olli mér er ómælanlegt, að viðbættum þeirri sorg og missi sem fjölskylda Terry gekk í gegnum eftir að hafa misst son sinn þetta kvöld með svona hrottalegum hætti. Slíka sorg og missi er ekki hægt að færa í orð, og ég finn enn til með þeim í dag.“
Schmidt var 23 ára gamall árið 1984. Hann hefur líklega talið sig hafa komist upp með ódæðið. Þegar hann var handtekinn bjó hann með eiginkonu sinni og börnum, glímdi við alvarlegan heilsubrest og með hreinan sakaferil. Hann játaði bæði að hafa myrt Arndt og nauðgað kærustu hans. Hann samþykkti að sæta lífstíðarfangelsi og að afsala sér réttinum til að áfrýja máli sínu og sleppur því við dauðarefsingu. Hann mun eins aldrei fá tækifæri til að sækja um reynslulausn.