Musk greindi frá þessu í færslu á X í gærkvöldi.
„Hey @Apple App Store, hvers vegna neitið þið að setja annaðhvort X eða Grok í ‘Must Have’ hlutann þegar X er númer 1 í heiminum meðal fréttaforrita og Grok er númer 5 meðal allra forrita? Eruð þið að spila pólitík? Hvað er í gangi? Forvitnir vilja vita.“
Grok er í eigu gervigreindarfyrirtækis Musks, xAI.
Musk sagði Apple haga sér þannig að það sé ómögulegt fyrir neitt annað gervigreindarfyrirtæki en OpenAI til að ná fyrsta sæti í App Store. Vill Musk meina að það sé ótvírætt brot á samkeppnislögum. Boðaði hann að xAI myndi grípa til tafarlausra aðgerða.
Apple hefur ekki svarað neinu en í umfjöllun AP er þess getið að Apple hafi margoft sætt ásökunum um brot á samkeppnislögum á undanförnum árum. Til dæmis er bent á það að ESB hafi lagt tæplega 2 milljarða dala sekt á Apple fyrir að hygla eigin tónlistarstreymisþjónustu með því að banna samkeppnisaðilum eins og Spotify að segja notendum hvernig þeir gætu greitt fyrir ódýrari áskriftir utan iPhone-forrita.