
NBC News greinir frá þessu og vísar í auglýsingu sem birtist í lögbirtingablaði Bandaríkjanna (e. Federel Register) í gær.
Þeim sem kæmu til Bandaríkjanna yrði skylt að afhenda þessi gögn, óháð því hvort þeir koma frá ríkjum sem krefjast vegabréfsáritunar eða ekki.
Meðal ríkja þar sem íbúar þurfa ekki vegabréfsáritun til að ferðast til Bandaríkjanna eru til dæmis Bretland, Þýskaland og Ísland auk fleiri landa. Þurfa þeir eingöngu að skrá ferðalag í ESTA-gagnagrunn fyrir brottför.
Bandaríska toll- og landamæraverndin hyggst einnig gera kröfu um að ferðalangar framvísi netföngum og símanúmerum sem notuð hafa verið síðustu fimm ár, sem og heimilisföngum og nöfnum nánustu fjölskyldumeðlima.
Í frétt NBC kemur fram að heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna hefði ekki svarað fyrirspurn miðilsins vegna málsins. Í tilkynningunni sem NBC News vísar í kemur fram að bandarískum almenningi gefist nú 60 dagar til að gera athugasemdir við tillöguna, en óljóst er á þessari stundu hvenær eða hvort þessar breytingar verði að veruleika.
Nokkur hundruð þúsund ferðamenn eru væntanlegir til Bandaríkjanna á næsta ári vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Hátt í 80 milljónir ferðamanna heimsækja Bandaríkin á ári hverju.