
Rússar, þar á meðal Dmitry Medvedev, fyrrverandi forseti og nú næstráðandi í þjóðaröryggisráði Rússlands, hafa haft orð á því að þeir gætu „sökkt“ óvinaþjóðum sínum, þar á meðal Bretlandi, ef þau halda sig ekki á mottunni.
Khabarovsk-kafbáturinn eins og hann heitir er þeirrar gerðar að hann getur skotið tveggja megatonna kjarnorkusprengju sem jafngildir sprengikrafti tveggja milljóna tonna af TNT.
Væri hægt að sprengja hana við strandlengju óvinaríkis með þeim afleiðingum að geislavirk flóðbylgja myndi flæða yfir og gera stór svæði óbyggileg.
Sprengjan sem Khabarovsk getur borið kallast Poseidon og vegur hún hundrað tonn. Hún getur ferðast afar langa vegalengd, tæpa 10 þúsund kílómetra á 185 kílómetra hraða.
Hulunni var svipt af kafbátnum í Severdvinsk í norðurhluta Rússlands um helgina og var hann smíðaður í hinni frægu Sevmash-skipasmíðastöð. Hann fer nú til sjóprófana áður en hann verður formlega tekinn í notkun.
Til stóð að taka kafbátinn í notkun árið 2020 en tæknilegar hindranir, kórónuveirufaraldurinn og innrásin í Úkraínu settu strik í reikninginn.
Pútín Rússlandsforseti virðist vera hæstánægður með nýjustu viðbótina í vopnabúrið og segir hann að Rússar standi nú framar öllum öðrum þjóðum á þessu sviði. „Það er enginn leið að stöðva hann,“ segir hann.
Jeffrey Lewis, fræðimaður við Middlebury-háskólann, segir í grein í Foreign Policy að nýjasta vopn Rússa sé mjög óhugnanlegt. „Við erum að tala um ógnarstórt kjarnorkuvopn sem er hannað til að valda langvarandi geislunaráhrifum.“