
Donald Trump Bandaríkjaforseti elskar tolla, fullyrðir að þetta sé rétta leiðin til að afla tekna fyrir ríkissjóð og skapa forsendur fyrir tekjuskattslækkunum. Hann fullyrðir sömuleiðis að það séu viðskiptaríki Bandaríkjanna sem á endanum borgi tollana. Sérfræðingar hafa ítrekað minnt á að tollar virka þannig að þeir eru lagðir á vörur þegar þær koma til Bandaríkjanna og það eru innflutningsaðilarnir sem þurfa að greiða hann. Ríkisstjórnin vildi þó meina að viðskiptaríkin myndu þó lækka verð til að mæta tollunum. Þannig myndu tollarnir ekki leiða til verðhækkana í Bandaríkjunum. Nú hefur þó fjöldi stórfyrirtækja boðað verðhækkanir í Bandaríkjunum vegna hærri tolla, verðhækkanir sem bitna á bandarískum neytendum.
Business Insider bendir á að Adidas hafi boðað verðhækkanir í Bandaríkjunum, enda er mikið af varningi þeirra framleiddur í Asíu, þá einkum í Víetnam sem Trump hefur lagt á 20 prósenta toll og Indónesíu sem fékk á sig 19 prósenta toll. Eins hafa stjórnendur Abercrombie & Fitch tilkynnt að verð muni hækka eftir áramót vegna tolla.
Nefna mætti fleiri fyrirtæki, svo sem AutoZone, Best Buy, Nikon, Conagra, Ferrari, Ford, Home Depot, Macy’s, Nike, Nintendo, Temu og Shein. Þessi fyrirtæki hafa gefið til kynna að verðhækkanir megi rekja beint til tollanna.
„Það á eftir að verða mjög, mjög erfitt að halda verðum viðráðanlegum fyrir Bandaríkjamenn, “ sagði forstjóri Columbia Sportwear í samtali við The Washington Post í október.