
MAGA-áhrifavaldurinn Laura Loomer segir að nasistar séu orðnir raunverulegt vandamál innan raða Repúblikana og það geri engum greiða að hundsa það.
Hún skrifar á X í dag:
„Ég ætla að segja það. Repúblikanaflokkurinn glímir við nasistavanda. Og því meira sem við látum eins og ekkert sé, því verra mun þetta verða. Við glímum við þetta. Ekki segja mér annað.“
Loomer tekur fram að hún sé ekki mótfallin því að sumir innan flokksins séu ekki hrifnir af Ísrael. Slíkar skoðanir geti átt rétt á sér og byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Hins vegar sé fólk innan flokksins alfarið á móti gyðingum og öllu því sem þeir gera.
„Kenna þeim um öll heimsins vandamál og segja gyðinga hafa enga hollustu við Bandaríkin.“
Þessi hópur eigi ekkert erindi í flokkinn. Sjálf segist Loomer bíða þess að flokkurinn horfist í augu við þessa stöðu áður en nasistarnir í flokknum valda því að demókratar sigri þingkosningarnar á næsta ári.
„Fólk má reiðast yfir því að ég segi þetta, en þetta er rétt. Ég er ekkert á móti þeim sem gagnrýna Ísrael. Ég hef sjálf kallað eftir því að hætta stuðningi við Ísrael. En við skulum bara viðurkenna að þetta snýst ekki um Ísrael.“
Loomer nefnir sem dæmi að vinsælir áhrifavaldar innan raða MAGA-hreyfingarinnar tali með gífurlega hatursfullum hætti í garð gyðinga. Þeim sé meðal annars kennt um morðið á Charlie Kirk og kalli eftir því að gyðingar brottvísi sjálfum sér úr landi. Ungt fólk sé farið að dásama Hitler á samfélagsmiðlum og heilsa að nasistasið. Gervigreind sé notuð til að framleiða myndbönd sem sýna þekkta gyðinga sem kakkalakka.
„Þetta er nasistavandi. Ef flokkurinn tekst ekki á við þetta eiga þeir skilið að tapa miðkjörtímabilskosningunum. Og já, þetta mun kosta okkur kosningarnar. Að klæða sig upp sem Hitler og tala af þráhyggju um Ísrael höfðar ekki til þorra Bandaríkjamanna. Að segja kristnum zíonistum að þeir séu versta fólk heimsins er ekki að fara að skila kosningasigri. Gangi ykkur vel með að tapa árið 2026 og líka 2028.“
Áhrifavaldurinn segir siðferðisvita flokksins brotinn. Á meðan dansi vinstrimenn gleðidans yfir að sjá flokkinn klofna.
Laura Loomer er umdeildur áhrifavaldur sem telst til fjar-hægris. Hún er gefin fyrir samsæriskenningar en hefur átt í nokkuð nánum samskiptum við Donald Trump Bandaríkjaforseta og telst mikill áhrifavaldur innan MAGA-hreyfingarinnar. Hún hefur til dæmis boðið sig í tvígang fram til þings með stuðningi Trumps. Sjálf hefur Loomer ítrekað verið gagnrýnd fyrir hatursfulla orðræðu, gjarnan í garð innflytjenda. Því þykir mörgum nokkuð lýsandi fyrir stöðuna innan Repúblikanaflokksins að Loomer sé farin að tjá sig með þessum hætti.
Hægrimenn standa nú í hörðum deilum í netheimum og í fjölmiðlum og skiptast í fylkingar eftir afstöðu þeirra til Ísrael.
